Ég skal vera fyrst að viðurkenna það að ég á bara ekkert í því að fá hugmynd af því að gera þessa gyðjulegu ostaköku.
Fylgjandi minn á Instagram hafði samband við mig og spurði mig hvort að ég væri til að prófa að gera köku sem hún kaupir alltaf og elskar en langar að gera sjálf.
Mér fannst hugmyndin vera spennandi og lagðist strax í rannsóknarvinnu til að sjá hvernig Eton Mess ostakökur eru gerðar, en ég viðurkenni að ég hafði aldrei heyrt um þær áður.
Ég fann alls kyns útgáfur af henni, en það sem þær áttu allar sameiginlegt var að það voru litlir krúttilegir marenstoppar á þeim og jarðaber.
Ég veit að þið eigið kannski eftir að hugsa ó nei of mikið vesen þessi en ég lofa ykkur því að hún er það bara alls alls ekki, það var mjög gaman að gera hana og mun auðveldara en ykkur grunar.
Hér fáið þið alveg mína eigin útgáfu af þessari dýrðarköku og mæli ég með að henda í eina því hún sést ekki á mörgum borðum þessi og það er svo gaman að koma með eitthvað nýtt.
Hráefni
Botn
- 360 gr hafrakex (ég notaði Digestive)
- 100 gr smjör brætt
- 25 gr rjómasúkkulaði dropar smátt skornir
Ostakakan/millilag
- 750 gr rjómaostur (best að nota sem er stífur í sér, tel að þess blái frá MS henti best hér (ekki auglýsing)
- 250 ml eða 1 peli þeyttur rjómi
- 150 gr flórsykur
- 100 gr smátt skorin jarðaber
- 50 gr hvítt súkkulaði skorið í litla bita (gott að nota hvíta dropa sem dæmi)
- 1/2 tsk vanilludropar
Sósa
- 150 gr fersk jarðaber
- 30 gr flórsykur
- 1 tsk sítrónusafi úr ferskri sítrónu
Marens toppar
- 50 gr eggjahvítur
- 100 gr strásykur
- 1/2 tsk cream of tartar eða vínsteinslyftiduft en það er það sama
- Rauður matarlitur
Ofan á
- Nokkur fersk jarðaber
- 100 gr hvítt súkkulaði brætt
Aðferð
Athugið að það fyrsta sem ég geri þegar ég geri þessa köku er marensin en það er best að leyfa honum að vera í ofninum meðan maður gerir allt hitt.
Botn
- Bræðið smjörið
- Malið kexið í blandara helst eða berjið á það með kökukefli
- Setjið kexmylsnuna í skál ásamt súkkulaðinu og hrærið saman
- Hellið svo smjörinu yfir og hrærið vel saman
- Þjappið svo í 24 cm smelluform og setjið í frystir
Millilag/ostakakan
- Þeytið rjómann og setjið til hliðar
- Þeytið næst rjómaost og flórsykur vel saman
- Skerið jarðaberin smátt og hvíta súkkulaðið líka
- Hærið svo ofurvarlega saman þeytta rjómanum og sæta rjómaostinum
- Bætið svo hvíta súkkulaðinu og jarðaberjunum út í og hrærið aftur mjög varlega saman, með sleikju eða sleif
Sósa
- Setjið allt saman í blandara og maukið þar til verður að sósu og leggið til hliðar
Marens Toppar
- Byrjið á að þeyta eggjahvíturnar með cream of tartar þar til þær verða hvítar og myndast í þeim far eftir þeytarann
- Byrjið þá á að bæta sykrinum smátt og smátt saman við þar til hann er allur komin ofan í
- Þeytið þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að nokkuð hreyfist í henni
- Setjið svo rauðan matarlit í sprautupoka, þá svona þrjár línur
- Sprautið svo litla sæta toppa á skúffu með bökunarpappa og bakið í 1 klst við 120 C°heitan blástur
- Leyfið svo marensnum að kólna í heitum ofninum
Ofan á
- Bræðið hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði
- Þvoið jarðaberin og þurrrkið vel og dífið að hluta ofan í hvíta súkkulaðið
- Setjið á grind og leyfið súkkualaðinu að storkna
Samsetning
- Þegar þið eruð búin að þeyta saman millilagið hellið því þá yfir botninn sem var búið að setja í frystir og setjið aftur í kælir. Leyfið henni að vera í kæli eins og í 2 klst, helst lengur
- Rétt áður en á að bera hana fram er best að taka hana úr forminu og setja á fallegan tertudisk
- Hellið jarðaberjasósunni ofan á hana í þunnu lagi og skiljið smá eftir til að hafa í skál til að bera með kökunni
- Raðið svo súkkaulaðihúðuðu jarðaberjunum og marenstoppunum yfir hana og berið fram
- Athugið ekki hella sósunni og skreyta hana fyrr en bera á hana fram, það er hætta á að hún geti farið að leka ef það er gert mikið fyrr !!
Verði ykkur að góðu
María
Endilega fylgið mér á Instagram