Dúnmjúkir ofureinfaldir Glaced Donuts

höf: maria

Ó guð hvað þessir Donuts eru góðir !! Og hver hefði trúað því að það væri svona auðvelt að gera alvöru glaced Donuts heima.

Þessir eru alveg eins og úr Bakaríi nema hér kostar stykkið ekki um 300 kr heldur frekar nær 30 kr. Fyrir Donuts unnendur þá er þetta svo sannarlega uppskrift fyrir ykkur.

Hér er ekkert vesen á ferðinni. Það eina sem þarf er hringlaga form og tappi af flösku, til að móta fallega dásemdarkleinuhringi. Svo þarf djúpa pönnu til steikingar.

Ekkert vesen, bara skemmtilegheit og smá dash af þolinmæði. Deigið þarf 1 klst til að hefast og svo aðrar 20 mínútur til að hefa mótaða kleinuhringina. Restin er peace of cake eða kannski frekar peace of donut.

Ekki vera hrædd við að steikja þá heima, það er engin hætta á ferðum ef farið er rétt að. Heimilið mun ekki anga í brælu, því lofa ég, enda tekur örstuttan tíma að steikja þá.

Kleinuhringirnir eru dásamlega mjúkir og loftkenndir inn í, og fisléttir eins og fjöður. Alveg nákvæmlega eins og þeir eiga að vera.

Fyrir þá sem vilja frekar hafa súkkukaðiglassúr þá er það ofurlítið mál. Hægt er að setja í raun hvað sem hugurinn girnist á þá. Nutella, hvítt brætt súkkulaði eða bara hvað sem er.

Hér hins vegar höfum við þá með þunnum sykurgljáa……umm namm

Ég veit að færslan er löng en þetta er samt afar einfalt. Trúið mér þetta er svo skemmtilegt dúllerí með krökkunum. Krakkarnir mínir fengu að vera með allt ferlið og mikið var það gaman hjá okkur

Dúnmjúkir ofureinfaldir Glaced Donuts

Ó guð hvað þessir Donuts eru góðir !! Og hver hefði trúað því að það væri svona auðvelt að gera alvöru glaced… Bakstur Dúnmjúkir ofureinfaldir Glaced Donuts European Prenta
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Í kleinuhringina þarf:

 • 520 gr hveiti
 • 140 ml (145 gr)  volg mjólk (ekki hærra hitastig en 38 C°, ég nota kjöthitamæli þegar ég mæli, en annars er það bara ilvolgt)
 • 90 ml volgt vatn
 • 50 gr sykur
 • 1 tsk borðsalt 
 • 25 gr pressuger
 • 1 egg
 • 2 tsk vanilluextract
 • 50 gr mjúkt Ljóma smjörlíki
 • 1 líter af bragðlausri steikingarolíu (best er Canola olía ef þið finnið hana eða grænmetisolía) Alls ekki nota sólblómaolíu eða steikingarfeiti (palmin) eins og notað er í kleinur !!

Glassúr uppskrift:

 • 250 gr púðursykur 
 • 75 gr brætt smjör eða smjörvi 
 • 3-5 msk nýmjólk (fer eftir hversu þykkan þið viljið hafa hann ég vil hann þunnan)
 • 1 tsk vanilluextract eða dropar

Aðferð

 1. Hér finnst mér best að hnoða í höndunum og líka svo miklu skemmtilegra
 2. Byrjið á að setja hveiti og salt í skál
 3. Búið svo til holu í miðjunni á hveitinu
 4. Setjið í holuna, mjólkina, vatnið, sykurinn og gerið
 5. Hrærið því svo vel saman í holunni, en ekki láta hveitið blandast við vökvann
 6. Bætið næst vanillunni og egginu út í vökvann í holunni. Best er að vera búin að hræra eggið upp fyrst
 7. Hrærið aftur vel saman vökvanum án þess að blandist við hveitið
 8. Þegar allur vökvinn er vel hrærður saman má hræra öllu saman við hveitið með sleif þar til þið getið ekki hrært lengur
 9. Takið þá mjúkann Smjörvann og bætið honum við deigið og byrjið að hnoða annað hvort í höndunum eða í hrærivél með króknum
 10. Ekki setja neitt meira hveiti saman við, hnoðið bara alveg þar til hættir að festast á puttana og deigið verður silkimjúkt. Ef þið gerið í hrærivél þá hnoða þar til deigið hættir að frestast á krókinn og puttana
 11. Ef deigið heldur áfram að vera klístrað setjið þá oggu pínupons hveiti...bara pínu pons og hnoðið áfram
 12. Mótið fallega glansandi kúlu úr deiginu og látið í skál með stykki yfir
 13. Mér finnst best að setja degið til hefingar á hlýjan stað, eins og í gluggakistu með miðstöðvarofn undir. Eða á gólfið ef þið eruð með gólfhita.
 14. Látið hefast í 1 klst (mega líka vera 2 klst ef þið viljið skreppa út á meðan)
 15. Nú byrjar það allra skemmtilegasta, að búa til kleinuhringina (sjáið myndir af því hér að neðan skoðið vel)
 16. Áður er samt mjög gott að klippa út ferninga úr smjörpappa til að leggja hvern og einn kleinuhring ofan á
 17. Setjið ögn af hveiti á bretti eða borð og leggið fallegu deigkúluna varlega ofan á
 18. Farið ofurvarlega með deigið því við viljum halda loftinu í því
 19. Byrjið að fletja það  mjög varlega út með kökukefli. Ekki hjakkast á því fram og til baka, heldur bara fara eins varlega yfir og mögulegt er. þar til deigið er orðið að 1-2 cm þykkum ferning
 20. Þá má byrja að skera út hringi með hringskera eða glasi (Ég var með 7,5 cm þvermál)
 21. Svo nota ég kóktappa til að gera litla gatið í miðjuna... ohhhh þetta er svo skemmtilegt !!
 22. Gerið þetta svo líka við deigið sem er eftir, fletjið það út aftur og skerið þar til allt deig er búið
 23. Takið svo hvern og einn kleinuhring og leggjið ofan á smjörpappaferning, því það auðveldar svo við steikinguna á eftir
 24. Leggið stykki yfir kleinuhringina og leyfið þeim að hefast í 20 mínútur
 25. Nú er að hita 1 líterinn af olíunni á djúpri pönnu eða potti. Ég notaði Wok pönnu með þykkum botni
 26. Gott er að setja smá deig út í olíuna til að meta hvort hún sé orðin nógu heit
 27. Þegar olían er til þá eru settir 2-3 kleinuhringir út á pönnuna með pappanum undir
 28. Takið svo strax smjörpappann varlega undan með töng og steikið þar til orðnir ljósgylltir öðrum meginn
 29. Snúið svo við og steikið á hinni hliðinni
 30. Leggið þá svo á eldhúspappír þegar þeir koma úr olíunni til að aukaolían fari í pappann en ekki inn í Kleinuhringinn

Gljái:

 1. Bræðið smjörið 
 2. Hrærið svo flórsykri og vanillu saman við 
 3. Bætið mjólk út í eftir því hversu þykkan þið viljið hafa hann

Punktar

Ég veit að þetta virðist við fyrstu sýn afar yfirgripsmikið og flókið en þannig er það alls ekki, þetta er mjög einfalt að gera. Passið exrtra vel hvaða olíu þið notið en canola eða grænmetis en langbest upp á að það komi ekki aukabragð af kelinuhringjunum en t.d er sólblómaolía of bragðmikil í þetta. Hér skiptir mestu að leyfa deiginu að hefast vel því þá verða kleinuhringirnir fisléttir og mjúkir.

Góða skemmtun

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

2 Athugasemdir

Ásrún January 28, 2019 - 1:42 pm

Sæl

Takk fyrir frábært blogg, skoða það reglulega 🙂 Mig langar að gera þessa kleinuhringi fyrir barnaafmæli. Hefur þú prófað að frysta þá?

kv.
Ásrún

Svara
maria January 29, 2019 - 10:26 am

Sæl Ásrún

Það er sko lítið að þakka og gleður mig að heyra að þú kikir inn reglulega 🙂

Já ég prófaði að frysta þá síðast þegar ég gerði þá en þá gerði ég það með glacinu á sem verður svona hálfblautt þegar það afþiðnar.

Held að ef þú frystir þá og setur svo glassúr á þá þegar þeir eru afþýddir þá ættu þeir að vera bara í fínasta lagi

kær kv María

Svara

Skrifaðu athugasemd