-Samstarf-
Þegar tita Paz, föðursystir mín, kom til Íslands fyrir mörgum árum síðan var okkur boðið í grillveislu til Gunnellu frænku.
Þar var okkur boðið upp á dýrindis döðluköku með ís og heitri karamellusósu í eftirrétt.
Kakan var svo dásamlega góð að ég gat aldrei gleymt henni, og fékk ég loks uppskriftina í mínar hendur nú um daginn mörgum árum seinna.
Gunnella frænka mín er algjör höfðingi heim að sækja og listmálari með meiru.
Myndirnar hennar eru ævintýralega fallegar, húmorískar og þjóðlegar í senn og gleðja hvert mannsbarn sem líta á þær augum.
En nú að döðlukökunni góðu, kakan er afar einföld og auðveld að gera og tekur bókstaflega enga stund.
Karamellusósan er svo nokkur hráefni sem er skellt saman í pott og soðið saman í 5-10 mínútur, ísí písí.
Útkoman er eins og ég sagði dásamleg, borið fram með vanilluís og heitri karamellusósunni, umm namm !!
Hér ákvað ég að nota döðlurnar frá Dave & Jon’s með heslnihnetum en það er ný og jafnframt fjórða tegundin frá þeim og mitt allra uppáhald.
Krakkar jafnt sem fullorðnir elska þessa köku enda ekki annað hægt, ég mæli með að þú prófir.
Hráefni
Döðlukaka
- 250 gr eða tveir pakkar af Dave & Jon's döðlum með heslihnetum
- 3 dl sjóðandi heitt vatn (soðið)
- 100 gr mjúkt smjör
- 130 gr púðursykur
- 2 egg
- 150 gr hveiti
- 150 gr dökkir súkkulaðidropar
- 1/2 tsk salt
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk vanilludropar
Heit karamellusósa
- 120 gr smjör
- 100 gr púðursykur
- 1 dl rjómi
- 1/2 tsk vanilludropar
- 1/2 tsk salt
Aðferð
Döðlukaka
- Hitið ofninn á 180 °C blástur
- Sjóðið 3 dl af vatni og hellið því sjóðandi heitu yfir döðlurnar ásamt súkkulaði og vanilludropum og leggið til hliðar
- Hrærið í hrærivél saman mjúku smjöri og sykrinum þar til létt og ljóst og skafið með köntum
- Bætið þá út í einu eggi í einu þar til er orðið loftkennt og ljóst
- Maukið nú döðlurnar með vatninu og súkkulaðinu í, í blandara/matvinnsluvél eða stappið vel saman með gaffli (vatnið á að vera með) og bætið út í deigið ásamt hveiti, salti og matarsóda
- Hrærið nú allt vel saman en ekki of mikið, bara þar til deigið er rétt blandað saman. Smyrjið 26 cm kökumót og hellið deiginu í það og bakið í 30 mínútur
- Gerið karamellusósuna á meðan
Heit karamellusósa
- Setjið smjör í pott og bræðið við vægan hita
- Bætið þá sykrinum og restinni af hráefnunum út í pottinn og látið byrja að sjóða
- Hærið af og til í sósunni og látið sjóða í eins og 5-10 mínútur
Berið kökuna fram volga með vanilluís og heitri karamellusósunni
Verði ykkur að góðu
María