Dásamlega mjúk hindberja rjómaterta með Tyrkisk Peber og rjómaostakremi

höf: maria

-samstarf-

Hér mætast saman andstæður sem dansa svo dásamlega við bragðlaukana að það er engu líkt. Piparbrjóstsykurinn Tyrkisk Peber og hindber úff namm !!!

Þessi dásamlega terta er ekki bara ofsalega bragðgóð heldur líka mjög auðveld að gera. Allir ættu að geta bakað hana. Ég mæli með því að gera hana að kvöldi til og leyfa henni að standa yfir nótt í ísskáp.

Þannig ná öll bragðefnin að sameinast vel og brjóstsykurinn aðeins að bráðna inn í dúnmjúkan svampinn. Leyfið henni alla vega að standa eins og í 5-6 tíma áður en hún er borin fram.

Það er ekkert sem ég veit skemmtilegra en að skera í köku og fá að sjá í sárið á henni. Það er eitthvað sem mér finnst girnilegast við kökur og hér varð ég sko ekki fyrir vonbrigðum.

Fallegur bleikur hindberjarjóminn og svört piparbrjóstsykursrönd innan um fisléttan og fallega gula svampinn, úff ég fæ vatn í munninn.

Hér er stjarnan að sjálfsögðu Tyrkisk Peber piparbrjóstsykur sem hefur fylgt mér síðan úr æsku, en hver man ekki eftir piparstöngunum frá þeim hér í gamla daga, ég vildi að Fazer kæmi með þær aftur.

En fyrir þá sem langar að gera eitthvað gott og skemmtilega öðruvísi mæli ég 150 % með þessari tertu við hverskyns tilefni.

Dásamlega mjúk rjómaterta með Tyrkisk pepper, hinberjarjóma og rjómaostakremi

-samstarf- Hér mætast saman andstæður sem dansa svo dásamlega við bragðlaukana að það er engu líkt. Piparbrjóstsykurinn Tyrkisk Peber og hindber úff… Bakstur Dásamlega mjúk hindberja rjómaterta með Tyrkisk Peber og rjómaostakremi European Prenta
Serves: 10-15 Prep Time: Cooking Time:
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Svampur

 • 4 egg 
 • 125 gr sykur 
 • 75 gr hveiti 
 • 25 gr kartöflumjöl 
 • 1 tsk lyftiduft

Hindberjarjómi

 • 1/2 líter þeyttur rjómi 
 • 3 dl hindberjasulta 
 • 4 matarlímsblöð 

Millilag 

 • 1 poki Tyrkisk peber 

Rjómaostakrem

 • 100 gr Philadelfia rjómaostur 
 • 50 gr mjúkt smjör 
 • 175 gr flórsykur 
 • 1/2 tsk vanilluextract eða vanilludropar
 • 1 msk muldir Tyrkisk Peber brjóstykur 

Aðferð

Svampur

 1. Þeytið saman sykur og egg á fullum krafti þar til orðið létt og ljóst og eins og þykk froða 
 2. Bætið næst öllum þurrefnunum saman við og hrærið ofurvarlega við með sleikju þar til allt er vel blandað saman
 3. Setjið næst í þrjú, 18 cm form í þvermál en þið getið líka sett í eitt 18-21 cm djúpt form og skorið svo í 3 botna eftir á, ef þið treystið ykkur til. Ég mæli með að baka bara 3 aðskilda botna
 4. Bakið við 175 C°blástur í 12-17 mínútur (byrjið á 12 og bætið svo við ef þarf). Ef þið gerið í einu djúpu formi bakið þá í 30 mínútur

Hinberjarjómi

 1. Þeytið rjómann 
 2. Látið matarlímsblöð í kalt vatn í 10 mínútur og takið svo upp úr vatninu og kreystið og bræðið í örbylgju í 10 sek 
 3. Hrærið matarlíminu við 3 tsk af sultu og svo við alla 3 dl af sultunni 
 4. Hrærið svo sultunni saman við þeytta rjómann varlega með sleif eða sleikju

Millilag 

 1. Setjið allan pokann af brjóstsykrinum í blandara og malið í duft. Eða setjið í poka og lemjið með kökukefli. 

Rjómaostakrem

 1. Þeytið saman mjög mjúku smjöri og Philadelfia osti 
 2. Þegar það er orðið mjúkt bætið þá saman við flórsykri og vanilludropum og þeytið þar til það verður vel hvítt og mjúkt
 3. Bætið svo 1 msk af Tyrkisk Peber út í og hrærið með sleikju varlega 

Samsetning 

 1. Svampbotn neðst 
 2. Svo hindberjarjómi 
 3. Svo mulin brjóstsykur þar ofan á og vel af honum 
 4. Svo aftur botn, hindberjarjómi, brjóstykur og svo enda á botni efst 
 5. Smyrjið svo mjúku kreminu yfir hliðar og topp kökunnar og skreytið ef þið viljið með ferskum hindberjum 

 

Punktar

Ég mæli með því að gera tertuna að kvöldi til og leyfa henni að standa yfir nótt í ísskáp. Leyfið henni allavega að standa eins og í 5-6 tíma áður en hún er borin fram. Hér þarf 3 svampbotna en hægt er að baka þá í 3 formum eða í einu og skera svo í þrjá botna. Þeir eiga að vera örþunnir. Rjómaostakremið er frekar lint en þannig á það að vera, mæli ekki með að reyna að sprauta því í rósir eða annað skraut, bara smyrja því á kökuna.

Verði ykkur að góðu

Endilega fylgist með á Instagram

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

2 Athugasemdir

Sigrún Stella April 7, 2020 - 11:42 am

Girnileg uppskrift, ég hef aldrei notað matarlím. Hvað geri ég ef ég á ekki örbylgjuofn til sð hita þau upp ? 😁🥰

Svara
maria April 7, 2020 - 12:13 pm

Sæl Sigrún Stella

Það er hægt að hita það örlítið yfir vatnsbaði, þ.e setur botnfylli af vatni í pott og svo skál yfir og límið í skálina 🙂

Hlakka til að heyra hvernig lukkast

Gleðilega páska

Svara

Skrifaðu athugasemd