Ég þori varla að segja ykkur hversu svakalega þessi blessaða uppskrift af Cinnabon snúðum gerði mig pirraða í skapinu í gamla daga. Hljómar kannski ekkert heillandi þegar maður er að gefa uppskrift…en bíðið við.
Ég á tímabili algjörlega hataði að baka þessa snúða og fékk nánast kvíðakast þegar blessuðum manninum mínum, Ragga langaði svakalega mikið í þá, sem var ansi oft.
Ég er ekki sú þolinmóðasta í bænum og vil bara súpereinfaldar uppskriftir. Því tókst mér að breyta henni þannig að hún yrði þægileg og auðveld að gera.
Raggi minn er alsæll að fá reglulega uppáhalds snúðana sína, enda finnst mér ekki mikið mál að skella í þá í dag, eftir að ég breytti uppskriftinni þannig að auðvelt væri að gera hana.
Snúðarnir eru svakalega matarmiklir og djúsí, og liggja Raggi og krakkarnir oftast í þessu þar til það er búið og kvartar svo Raggi yfir að þyngjast um svona 2-3 kíló eftir cinnabon át.
Hráefni
Snúðar:
- 285 gr mjólk eða (1 bolli)
- 125 gr sykur eða (1/2 bolli)
- 1 bréf eða 11 gr af þurrgeri eða 30 gr pressuger en þá verða þeir enn mýkri og léttari (fæst í kæli)
- 2 egg
- 80 gr olía eða (1/3 bolli)
- 730 gr af hveiti eða (4 1/2 bolli)
- 1 tsk salt
Fylling:
- 220 gr af púðursykri eða (1 bolli)
- 2 1/2 msk af kanil
- 80 gr smjör eða (1/3 bolli)
kremið ofan á:
- 125 gr rjómaost eða (1 dl)
- 60 gr af mjúku smjöri eða (1/4 bolli)
- 260 gr flórsykur eða (1 1/2 bolli)
- 1/2 tsk vanilludropar eða vanillu extract
Aðferð
Snúðar:
- Byrjið á að setja volga mjólk, sykur og ger saman í hrærivélarskál og hrærið saman léttilega með sleikju. Látið standa í eins og 5 mínútur og takið tímann
- Setjið næst olíu og egg út í og hrærið saman með sleikju þar til vel blandað saman
- Bætið nú salti og hveiti út í og látið hnoðast með krókinum á vélinni deigið er til þegar það er búið að hringa sig utan um krókinn
- Breiðið næst stykki yfir deigið og látið hefast í 30-40 mínútur á volgum stað (Má líka hefast lengur, alveg í nokkra tíma þess vegna). Ég læt það alltaf hefast yfir volgum miðstöðvarofni. Ef notað er pressuger er betra að leyfa þeim að hefast í eins og 1 klst
- Athugið að deigið hefast ekkert svakalega mikið og er frekar þungt í sér, svo ekki hafa áhyggjur af því. Ef pressuger er notað hefast þeir mun meira
- Á meðan deigið er að hefast útbý ég kremið og fyllinguna inn í snúðana
Fylling:
- Bræðið smjörið og blandið því svo saman við kanilinn og púðursykurinn
- Blandið vel saman
Kremið ofan á:
- Ég hita smjörið ögn í örbylgjunni til að mýkja það, ekki bræða það alveg heldur bara að það verði svona vel mjúkt
- Svo hræri ég saman smjörinu, rjómaostinum og vanilludropunum.
- Síðast set ég svo sykurinn út í og hræri vel saman þar til silkimjúkt og kekkjalaust, líka ágætt að gera með handþeytaranum
Næsta skref
- Þegar deigið er búið að hefast er það flatt út í ferning. Ekki hafa hann of þunnan né stóran, best að hafa hann í þykkari kantinum, því þá verða snúðarnir meira djúsí
- Setjið svo fyllinguna vel yfir allt deigið
- Rúllið síðan deiginu upp í pulsu, og skerið í frekar þykka bita, eins og c.a 5 cm
- Raðið snúðunum í eldfast mót og hafið pínubil á milli svo þeir nái allir að bakast í gegn, þeir munu líka stækka og verða alveg klesstir saman
- Leyfið þeim að hefast undir stykki í svona 10 mínútur aftur ef vill, þarf samt ekki ef þið viljið sleppa því
- Bakið svo á 180 °C-190 C° bæstri í 15 mínútur. Snúðarnir eiga að vera gullinbrúnir þegar þeir koma úr ofninum frekar ljósir. Passið að baka ekki of mikið
- Setjið svo síðast rjómaostakremið á snúðana sjóðandi heita og berið fram heitt en það er langbest þannig
Verði ykkur að góðu
María