-Samstarf-
Ég ákvað að prófa að breyta aðeins til og í stað Chili con carne (chili með kjöti) gerði ég Chili con Pollo eða (chili með kjúkling)
Útkoman var hreint út sagt dásamleg. Kjúklingurinn svo meir og góður og sósan svooo góð. Uppistaðan var tómatar í dós frá Hunts sem eru að mínu mati þeir bestu í svona rétt.
Þessir tómatar innihéldu líka hvítlauk svo ekki var það nú verra. Réttinn bar ég fram með grjónum, nacho snakki og sýrðum rjóma, bæði hafrarjóma frá Oatly og hefðbundnum sýrðum rjóma með graslauk.
Namm þetta var svo gott. Fyrir ykkur sem hafið kóríander genið þá mæli ég með að hafa það með út á en fyrir ykkur hin sem hafið það ekki, sleppið því þá, (ég get t.d alls ekki borðað það).
Hér notaði ég úrbeinuð kjúklingalæri en þau eru mun bragðmeiri og meirari en bringur. Ef þið viljið frekar hafa bringur eða jafnvel hakk má vel gera það líka.
Ef þú vilt vera eins og sannkallaður Mexíkói þá mæli ég líka með að setja út á hann tvo bita af dökku súkkulaði en það gefur réttinum meiri dýpt og skerpu, og gefur fallegan djúpan lit.
Ég ákvað að nota góðar baunir í réttinn, lífrænt ræktaðar frá Rapunzel en þær eru bara mikið betri og halda sér án þess að klofna eða merjast. Auk þess eru þær bragðmeiri og betri.
Útkoman stóð ekki á sér og var rétturinn ofsalega góður og skemmtileg tilbreyting frá hinu hefðbundna Chili con Carne. Krökkunum mínum gaf ég hann vafinn inn í tortilla kökur og fannst þeim það ofsa gott.
Hráefni
- 2 laukar (gulir)
- 40 gr smjör
- 3 hvítlauksgeirar eða 1 lítill geiralaus hvítlaukur
- 2 rauðar paprikur
- 2 grænar paprikur
- 1 tsk chiliduft
- 1 1/2 tsk Cumin (broddkúmen)
- 10-15 dropar Tabasco sósa
- 1/4 tsk cayenne pipar
- 2 tsk gróft salt
- 1 msk kjúklinga kraft í dufti frá Oscar eða 1 kjúklingatening
- 1 msk agave síróp eða önnur sæta
- 2 x 411 gr Hunts Diced Roasted Garlic tómata í dós
- 2 msk tómatpúrra
- 1 dós nýrnabaunir (ég notaði frá Rapunzel en má nota hverjar sem er)
- 1 dós gular baunir
- 2 bitar dökkt súkkulaði (má sleppa)
- 600-800 gr úrbeinuð kjúklingalæri
- Salt og pipar
Meðlæti:
- Nachos
- Soðin grjón
- Sýrður rjómi
Aðferð
- Bræðið smjör á pönnu og setjið smátt skorin lauk út á. Saltið létt yfir og látið malla í eins og 15 mín eða meðan þið skerið annað hráefni niður í réttinn. Paprikur smátt og kjúkling í gúllasbita
- Passið að mýkja bara laukinn í smjörinu en ekki brúna hann
- Merjið næst hvítlauk og setjið út á laukinn
- Hrærið saman og bætið paprikum út á og saltið létt aftur yfir
- Kryddið svo með Cumin, Cayenne, Tabasco, Chili og hrærið vel saman
- Setjið næst Kjúklingin í gúllasbitum með á pönnuna og kryddið með kjúklingakraftinum, leyfið honum að verða hvítum en þarf ekki að vera steiktur í gegn
- Bætið næst dósatómötum og púrru út á og hrærið öllu vel saman
- Saltið með 2 msk af grófu salti og setjið súkkulaðibitana út í
- Látið malla undir loki í 20 mínútur en nú er gott að byrja að sjóða grjón með réttinum
- Eftir að sá tími er liðin setjið þá nýrnabaunir og gular baunir út á og látið sjóða í 10 mín til viðbótar
- Berið svo fram með grjónum, nachos, og sýrðum rjóma
Punktar
Flest grjón þurfa 20 mín suðu svo gott er að setja þau í pott þegar rétturinn er komin saman og á að sjóða í 20-30 mín. Best að bera fram með nachos, grjónum og sýrðum rjóma en krökkunum fannst gott að setja þetta inn í tortilla kökur. Eins og með margar kássur og súpur þá er þessi enn betri daginn eftir, jafnvel eftir 2 daga. Ég mæli með að setja út í 2 bita af dökku súkkulaði en það gefur réttinum skerpu og dýpt auk fallegri lit.
Verði ykkur að góðu
María