Það eru alltaf þessar gömlu góðu uppskriftir sem standa fyrir sínu sem ég elska mest. Þessi uppskrift af Draumtertu hefur fylgt mér alla tíð síðan úr æsku.
Ég held að það sé óhætt að segja, að þessi terta sem gengur líka undir nafninu Dísudraumur, sé mín allra uppáhalds terta síðan ég man eftir mér.
Ég held að þessi sé ein af þessum gömlu góðu íslensku þjóðlegu tertum sem margir muna eftir úr æsku. Ég viðurkenni það að það voru liðin þónokkur ár frá því ég gerði hana síðast.
Hún dúkkaði svo upp þegar ég var að fara í gegnum uppskriftarbók, sem ég hafði handskrifað allar mínar uppáhaldsuppskriftir í 17 ára gömul, þegar ég var að flytja til pabba míns á Spáni í eitt ár.
Uppáhaldsuppskriftirnar urðu að sjálfsögðu að flytja með mér til Spánar, en þessi frábæra handskrifaða uppskriftarbók, hefur heldur betur gert það gott og fylgt mér alla tíð síðan.
Hér ætla ég að deila með ykkur þessari uppáhaldsuppskrift minni, en ég breytti henni örlítið. Ég sver að ég hélt að hún gæti ekki orðið betri, en mér tókst það held ég bara svo sannarlega með því að setja örlítið twist á hana.
Ég set niðurskorið Pralín súkkulaði með karamellufyllingu í svampbotnin, og trúið mér það er geggjað gott. Það gefur manni svona aðeins meira til að tyggja en annars er kakan það mjúk að hún líkist smá súkkulaðifrauði.
Ef þið viljið hafa hana upprunalega þá er betra að sleppa Pralín súkkulaðinu. Best er að baka svampbotninn og Marensin að kvöldi til og leyfa marensnum að vera í slökktum ofninum alla nóttina, þannig verður hann alveg fullkomin.
Síðan er tertan best þegar hún er búin að vera samsett í allavega 6 tíma og marensinn aðeins búin að blotna upp í rjómanum, og enn betri daginn eftir.
Hráefni
Svampbotn
- 2 egg
- 70 g sykur
- 30 g hveiti
- 35 g kartöflumjöl
Marens
- 3 eggjahvítur
- 150 g Sykur
Súkkulaðikrem
- 3 Eggjarauður
- 4 msk flórsykur
- 50 gr brætt súkkulaði (ég notaði 70 % og það var miklu betra, gaf kreminu djúpt og gott súkkulaðibragð)
- 1 peli af rjóma
Aðferð
Svampbotn:
- Skerið niður í bita eina plötu af Pralín með karamellufyllingu og setjið til hliðar
- Eggin þeytt vel og sykri síðan bætt við
- Egg og sykur þeytt mjög vel þar til það er orðið ljóst og loftkennt þá er slökkt á hrærivélinni
- Hveiti og kartöflumjöl er svo sigtað saman út í skálina og Pralín sett með. Blandið varlega við deigið með sleif, passið að hræra ekki á fullu heldur blanda mjög varlega saman með sleifinni
- Deigið er svo sett í smurt tertuform. Ég notaðist við 21 cm form til að hafa kökuna hærri en oftast er notast við 26 cm hefðbundin form. Þið ráðið hvort þið viljið
- Bakið í 12-17 mínútur (byrjið á 12 mínútum). Fyrstu 5 mínúturnar er deigið bakað við 200°C en síðan við 185°C restina af tímanum.
- Stingið í miðjan botninn með prjón og ef ekkert kemur á prjóninn er botninn tilbúinn ef deig kemur á hann er gott að bæta við þessum 5 aukamínútum
Marens:
- Ég blanda alltaf öllu saman í Kitchen Aid hrærivélina og hræri eins og enginn sé morgundagurinn þar til blandan er orðin skjannahvít og ég get hvolft skálinni án þess að það detti úr henni.
- Hefðbundin aðferð er að stífþeyta eggjahvíturnar og sykri er bætt mjög varlega smátt og smátt við meðan vélin hrærir. Hjá mér hefur aðferð hér að ofan dugað mjög vel
- Ég klippi svo smjörpappa í hring og hef hann töluvert stærri en 21 cm formið. Hringinn set ég svo ofan í formið svo hann nái alveg upp á kantana og passa vel að pappinn fari vel í allar hverkarnar
- Setjið svo marensblönduna út í formið með pappanum og bakið í 2 klst við 100 C°
- Slökkvið svo á ofninum og leyfið marensnum að vera í honum alla nóttina. Það er besta aðferðin við að ná fullkomnum marens
Súkkulaðikrem:
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og leggjið til hliðar
- Þeytið saman eggjarauðurnar og flórsykurinn þar til orðið ljóst og loftkennt
- Hellið brædda súkkulaðinu smátt út á meðan þeytt er
- Að lokum er svo slökkt á hrærivélinni og 1 peli af þeyttum rjóma er hrært ofurvarlega með sleif saman við
Samsetning á kökunni
- Þeytið nú 1/2 líter af rjóma og setjið til hliðar
- Setjið svampbotninn á kökudisk og látið hliðina þar sem sést mest í Pralín súkkulaðið snúa upp
- Smyrjið nú helmingnum af þeytta rjómanum á svampbotninn
- næst er svo helmingurinn af súkkulaðikreminu sett á rjómann
- Upp á súkkulaði kremið kemur svo marensinn
- Á marensinn kemur svo restinn af þeytta rjómanum og á toppinn restinn af súkkulaðikreminu
- Best er að bera tertuna fram 6-8 klst eftir samsetningu og enn betri er hún daginn eftir
Punktar
Best er að gera tertuna í þessari röð. Kvöldinu áður er bakaður svampbotn og marens. Daginn sem setja á kökuna saman þarf að gera kremið og þá er þeyttur 1 peli af rjóma um leið og kremið er gert. Svo er að setja kökuna saman og þá er aftur þeyttur 1/2 líter af rjóma. Trúið mér tertuna er ekki flókið að gera og ættu allir að geta gert hana ef þeir fylgja uppskriftinni og aðferðunum 100 % eftir. Ef þið viljið hafa hana upprunalega þá er betra að sleppa Pralín súkkulaðinu. Best er að baka svampbotninn og Marensin að kvöldi til og leyfa marensnum að vera í slökktum ofninum alla nóttina, þannig verður hann alveg fullkomin Síðan er tertan best þegar hún er búin að vera samsett í allavega 6 tíma og marensinn aðeins búin að blotna upp í rjómanum, og enn betri daginn eftir.
Þessi terta er bara guðdómlega góð ég sver fyrir það.
Verði ykkur að góðu.
María
2 Athugasemdir
Þessi hefur alltaf verið kölluð “Dísu draumur” á mínum bæ, hvers vegna veit ég ekki. Hún er sjúklega góð og mér finnst hún alltaf best þegar búið er að frysta hana, þess vegna er gott að setja hana í frysti þar til hún er borin fram.
já ég er svo sammála en það er sniðugt ráð að frysta hana ætla að prófa það næst, gæti vel trúað að hún sé rosa góð þannig 🙂