Vatnsdeigsbollur með hvítum Toblerone rjóma og brúnum Toblerone glassúr

höf: maria

-Samstarf-

Dásamlegar vatnsdeigsbollur sem enginn ætti að vera svikinn af.

Hér bræddi ég hvítt Toblerone út í rjómann og saxaði niður brúnt Toblerone saman við.

Einnig bræddi ég brúnt Toblerone og setti saman við glassúrinn og útkoman var æði.

Dásamlegt seigt núgatið úr Tobleroninu kemur í gegn og gefur bollunum þetta auka bit sem er svo gott við Toblerone.

Hér notaðist ég við vatnsdeigsbollu uppskrift sem ég held að sé óhætt að segja að hafi farið um allt hér um árið.

En þessi uppskrift bara klikkar ekki, og tekst öllum sem ég veit um vel til sem hafa prófað hana.

Ég held ég geti nánast lofað að ef þið prófið þessa uppskrift af bollum þá mun hún ekki klikka !!

Vatnsdeigsbollur með hvítum Toblerone rjóma og brúnum Toblerone glassúr

-Samstarf- Dásamlegar vatnsdeigsbollur sem enginn ætti að vera svikinn af. Hér bræddi ég hvítt Toblerone út í rjómann og saxaði niður brúnt… Bakstur Vatnsdeigsbollur með hvítum Toblerone rjóma og brúnum Toblerone glassúr European Prenta
Serves: 16-17 bollur Prep Time: Cooking Time:
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Bollur

  • 115 gr smjör (best að vigta á vog)
  • 235 gr vatn (vigtið það á vog)
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk sykur
  • 130 gr hveiti
  • 4 egg

Hvítur Toblerone rjómi 

  • 200 gr hvítt Toblerone 
  • 100 gr brúnt Toblerone 
  • 500ml rjómi 
  • lyftiduft á hnífsoddi (má sleppa, en rjóminn heldur sér betur þannig)

Glassúr 

  • 2,5 dl flórsykur 
  • 100 gr brúnt Toblerone 
  • 3 msk vatn 
  • klípa af salti 

Aðferð

Bollur

  1. Setjið vatn, salt, sykur og smjör saman í pott og hitið saman þar til byrjar að sjóða
  2. Þegar suðan er komin upp setjið þá hveitið út í og hrærið stöðugt í með sleif þar til myndast eins og filma í botninn á pottinum og deigið er orðið vel blandað saman (alveg í eins og 1-3 mín)
  3. Setjið svo deigið til hliðar í 3 mínútur (takið tímann og hafið það áfram í pottinum)
  4. Bætið nú einu eggi út í og hrærið stöðugt. Fyrst bregður ykkur og haldið að deigið sé að skemmast því það fer allt í sundur en hrærið þar til það er samsett aftur. Hér notið þið bara áfram pottinn og sleif, ekki setja yfir í hrærivél.
  5. Þá er að bæta eggi númer 2 í og þá gerist aftur það sama. Þegar deigið er samsett aftur þá er eggi 3 bætt í og haldið áfram svona þar til öll egginn 4 eru komin út í og deigið fallega slétt og kekkjalaust
  6. Mér finnst best að sprauta deiginu á ofnskúffu með bökunarpappa. Þá tek ég plast sprautupoka og klippi frekar stórt gat á pokann en hef engann stút. Svo sprauta ég bollu á skúffuna og passa að hafa ágætt bil á milli næstu bollu. Ykkur gæti fundist eins og deigið sé lint og leki á plötunni en ekki hræðast því bollurnar lyftast og stækka mjög mikið í ofninum.
  7. Dýfið svo puttanum í vatn og strjúkið yfir geirvörtuna sem myndast ofan á bolluni eða toppinn sem stendur upp þannig að bollan verði flöt ofan á
  8. Penslið svo að lokum með hrærðu eggi (megið sleppa en gerir þær mjög flottar)
  9. Bakist í 25-30 mínútur á 190 C° blæstri
  10. Þegar bollurnar eru teknar út látið þær þá alveg í friði ofan á ofnskúffunni þar til þær eru orðnar kaldar þá falla þær ekki og halda lögun sinni

Hvítur Toblerone rjómi 

  1. Bræðið hvíta Tobleronið yfir vatnsbaði og leyfið því að kólna ögn án þess að það storkni 
  2. Þeytið rjómann ásamt lyftiduftinu og saxið brúna Tobleronið smátt niður 
  3. Hellið svo hvíta brædda Tobleroninu varlega í rjómann og hrærið varlega saman með sleikju 
  4. Setjið svo smátt saxaða Tobleronið saman við rjómann og hrærið varlega saman svo rjóminn falli ekki

Glassúr 

  1. Bræðið brúna Toblerone súkkulaðið yfir vatnsbaði 
  2. Setjið svo flórsykur og salt saman í skál og hrærið létt saman með skeið
  3. Bætið svo brædda súkkulaðinu saman við og vatninu og hrærið vel saman þar til er orðið silkmjúkt og glansandi

Samsetning

  1. Skerið bollur í sundur og setið sultu að eigin vali á botninn, rjómann svo ofan á 
  2. Dífið toppnum í glassúrinn og lokið bollunni og njótið 

 

Punktar

Hér er mikilvægt að slumpa ekki eða breyta og bæta, það er alveg bannað. Farið alveg 100 % eftir uppskriftinni til að þær takist sem allra best hjá ykkur. Hér þurfið þið bara pott og sleif, ekki færa neitt yfir í hrærivél eins og er svo oft gert, það er alveg óþarfi.

Verði ykkur að góðu

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here