Hver elskar ekki að fara á gott kaffihús og fá sér kaffi og gott með því ? Ég allavega leyfi mér það orðið ansi oft.
Hins vegar verð ég að segja að ég fæ stundum aðsvif þegar ég sé verðið á t.d. kökusneið, sem hægt væri að gera heima margfalt fyrir nánast sama pening.
Hvað um það, ég fór á kaffihús hér í bænum um daginn og sá svona kökur eins og þessar og gat ekki hætt að hugsa um þær.
Ég ákvað því að gera bara mína eigin útgáfu, þrátt fyrir að hafa ekki smakkað þessar á kaffihúsinu.
Útkoman lét ekki á sér standa og allir elskuðu þær. Kökurnar eru með stökkum köntum og mjúku biti í miðju.
Kremið er síðan dásamlega mjúkt og sætt og fullkomnar kökurnar.
Ef þú vilt sleppa því að hafa krem þá eru kökurnar einar og sér líka afar ljúffengar.
Ég mæli með að þú prófir enda er afar einfalt og skemmtilegt að gera þær.
Ekki skemmir fyrir hvað þær eru líka fallegar fyrir utan að vera góðar.
Hráefni
Kökur
- 230 gr smjör við stofuhita jafnvel mýkra
- 110 gr sykur
- 200 gr púðursykur
- 2 egg (best við stofuhita)
- 2 tsk vanilludropar
- 375 gr hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk fínt borðsalt
- 360 gr dökkir súkkulaðidropar eða smátt skorið dökkt súkkulaði
Krem
- 250 gr mjúkt smjör
- 400 gr flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 3 msk rjómi
Aðferð
Kökur
- Hitið ofninn á 175 C°blástur
- Þeytið vel saman allan sykur og smjör þar til það er orðið létt og ljóst
- Bætið næst við vanilludropum og einu eggi í einu og hafið hrærivélina í gangi á meðan
- Takið aðra skál og sigtið í hana hveiti, matarsóda og salti og leggið til hliðar
- Leyfið deiginu í hrærivélarskálinni að þeytast vel saman þar til það er orðið fallega loftkennt og ljóst (gott að þeyta eins og í 5-6 mínútur)
- Bætið þá hveitinu út í meðan vélin er enn í gangi í 2-3 skömmtum og hrærið allan tímann þar til er orðið fallega klístrað deig
- Bætið að lokum við súkkulaðidropum og hrærið annað hvort á lægsta í hrærivél eða með sleif þar til súkkulaðið er nægilega blandað við deigið (passa að hræra ekki of mikið ef gert er í hrærivél, þá brotnar súkkulaðið)
- Mótið næst kúlur úr deiginu með ísskeið eða c.a 2-3 msk af deigi, hver kúla á að vera á stærð við borðtenniskúlu eða golfkúlu
- Raðið 9 kúlum á bökunarplötu með bökunarpappa og þrístið þumalputta niður í miðja kúluna svo það komi dæld
- Bakið svo hverja plötu í 12-15 mínútur. Ég bakaði mínar í 12 mín en þær eru eins og smá hráar nýkomnar úr ofninum, en þannig eiga þær að vera til að fá mjúka miðju
- Ef ykkur finnst þær ekki nógu flatar þegar þær koma úr ofninum má þrýsta á þær með spaða og kremja þær aðeins niður
- Látið standa á heitri bökunarplötunni í eins og 10 mínútur áður en þið færið yfir á grind og látið kólna þar alveg áður en kremið er sett á
Krem
- Þeytið smjörið mjög vel og lengi þar til það er orðið lofkennt, mjúkt og ljóst (alveg í góðar 15 mínútur á háum hraða)
- Sigtið næst flórsykur út í smjörið og bætið við vanilludropum og rjóma og stillið fyrst á lágan kraft svo flórsykur fari ekki um allt.
- Hækkið svo upp í mjög háan hraða og þeytið í aðrar 15 mínútur svo kremið verði fallega mjúkt, loftkennt og ljóst
- Þegar kökurnar hafa alveg kólnað setjið þá kremið í sprautupoka með stjörnustút og sprautið á eina köku og lokið svo með annari ofan á. Það má líka smyrja kreminu á ef þið viljið sleppa því að sprauta því
Punktar
Mér finnst best að geyma kökurnar í kælir og taka svo út 10 mín áður en þeirra er neytt.
Verði ykkur góðu
María