-Samstarf-
Hver man ekki eftir gamla góða karamellukransinum með Walkers karamellunum frá því í gamla daga ?
Ég man að mér fannst alltaf mjög gaman að þessum kransi. Sérstaklega þegar maður fékk að næla sér í eina og eina karamellu úr honum.
Mig langaði svo að gera einn svona fyrir krakkana mína til gamans og leyfa þeim að næla sér í karamellu hér og þar svona spari á aðventunni.
Ég ákvað því að nútímavæða þennan gamla góða krans og gera hann í meiri nútímamynd.
Og er bara frekar ánægð með útkomuna.
Það þarf ekki mikið í kransinn, bara járnhring, snæri, fallegt greni og borða. Ég setti grenið á hann neðst og batt svo karamellur í snæri sem ég batt í miðjuna og læt lafa niður.
Svo setti ég fjólubláa slaufu fyrir miðju til að fela hnútana á snærinu. Ofureinfalt og skemmtilegt að gera.
Ef karamellur klárast er best að gera nýtt snæri og binda karamellur við og hengja á kransinn í stað snæris sem er með tómum bréfum á.
Walkers karamellurnar eru til í fleiri bragðtegundum eins og lakkrís og súkkulaðihúðaðar. Þá eru bréfin í öðrum litum svo þið getið leikið ykkur að gera krans í þeim lit sem ykkur langar.
Ég mæli með að kaupa heilt kíló af Walkers karamellunum því það má alltaf bæta á kransinn.
Þið getið notast við þá litapallettu sem ykkur finnst passa við þær karamellur sem þið kjósið.
Karamellurnar fást í 1 kg pakkningum bæði í Bónus og Hagkaup en allt annað í kransinn er hægt að fá í blómabúðum. Ég fékk mitt í Garðheimum.
Hráefni
- 1 kg Walkers karamellur að eigin vali
- Lítinn járnhring í svörtu eða gylltu
- 1 kefli af snæri
- Greni að eigin vali í grænu
- Gyllt skraut eins og spreyjaðar greinar
- Borði til að gera slaufu
- Svartur fíngerður vír
- Límbyssa ef þið eigið (þarf ekki en betra að hafa fyrir slaufuna)
Aðferð
- Byrjið á að klippa snæri í mismunandi lengdum og binda nokkrar karamellur á annan endann á snærið. (Ástæðan er sú að maður togar í hinn endann til að fá sér karamellu)
- Klippið niður greni og greinar í hæfilega stærð og bindið með vír neðst vinstra og hægra megin svo það vísi í sitthvora áttina
- Bindið næst snærin með karamellunum á neðst svo það lafi niður fyrir miðju
- Gerið fallega slaufu og límið á með límbyssu eða bindið á fyrir miðju til að fela hnútana
- Setjið svo borða efst til að hengja kransinn upp með
Mæli með að þið prófið, sérstaklega fyrir krakkana ykkar
María