-Samstarf-
Mánudagsbleikja já ! En það þýðir ekki að það megi ekki hafa þennan rétt hvaða annan dag sem er. Ástæða nafnsins er að oft er fiskur á mánudögum og vil ég þá geta gert eitthvað afar einfalt og létt.
Þessi réttur mun koma þér á óvart, bæði hversu góður hann er sem og einfaldur að gera. Tekur innan við hálftíma að matreiða og þarf afar fá hráefni.
Bleikjuna smyr ég með uppáhalds rjómaostinum mínum frá Philadelphia eða með hvítlauk og kryddjurtum, svo strái ég panko raspi með ögn af graslauk og sítrónuberki yfir og inn í ofn.
Þessi blanda passar bara eitthvað svo hárrétt saman, hér þarf síðan ekkert að hafa meira með en ofnbakaðar Aviko franskar en mér finnst þær bestar og ferskt salat.
Einfaldara getur það ekki orðið. Hollt og bragðgott og létt. Hvað er hægt að biðja um meira ?? Ég get bara mælt með að þið prufið.
Hráefni
- 4 stk bleikjuflök
- 50 gr panko rasp (má líka nota bara brauð sem búið er að mala í blandara)
- 1 msk ferskur graslaukur
- Börkur af ferskri sítrónu
- 1 askja af Philadelphia með hvítlauk og kryddjurtum
- Salt og pipar
- Meðlæti, sætar Aviko franskar og venjulegar
- Ferskt salat að eigin vali
Aðferð
- Hitið ofninn á 180 C°
- Byrjið svo á að setja franskarnar inn í ofn meðan bleikjan og salat er útbúið því þær þurfa lengri tíma
- Takið næst bleikjuflökin og saltið þau og piprið
- Smyrjið vel af Philadelphia ostinum yfir flökin helst í þykku lagi
- Blandið næst panko raspi eða brauðmylsnu, graslauk og sítrónuberki saman í skál og hrærið vel í
- Stráið yfir Philadelphia ostinn á bleikjuflökunum og setjið í ofn í eins og 20 mín
- Berið svo fram með salatinu og frönskunum
Ljúffengt og gott, verði ykkur að góðu
María