Þetta dásamlega brauð er bara hreint út sagt geggjað gott. Það er ferlega gaman að baka það, og ekki skemmir fyrir hversu fallegt það er. Það minnir mig helst á fallega blúndu.
Brauðið er ekki erfitt að gera, það eina sem þarf er að gera hlutina í réttri röð og gefa sér tíma. Fyrst þarf að gera deigið, og á meðan það hefast er gott að skella í dásamlega kryddostablöndu og fræin sem fara ofan á.
Brauðið er síðan rifið í sig, í bókstaflegri merkingu, en þar sem það er lagskipt er það rifið í sneiðar með fingrunum en ekki skorið. Það er æði í góðum félagsskap þar sem hver og einn rífur sér sneið og borðar með góðri lyst….namm.
Ég er ekkert að grínast með það að þetta er eitt skemmtilegasta og besta brauð sem ég hef bakað og mæli ég eindregið með því að skella í svona þegar von er á góðum gestum.
Ekki láta lengd uppskriftarinnar hræða ykkur, ég sver fyrir það að þetta er afar einfalt og virkilega skemmtilegt að gera !!
Hráefni
Deigið:
- 2 tsk þurrger (ég notaði Instaferm sem er skilgreint sem Inta Yeast og virkar hraðar. Megið samt nota venjulegt líka)
- 1 msk sykur
- 3/4 bolli (180ml) mjólk
- 3 msk (45g) ósaltað mjúkt smjör
- 1 stórt egg
- 2 og 1/3 bolli (290g) hveiti, meira ef þess þarf
- 1 tsk salt (borðsalt)
Rjómaostafylling:
- 220 g rjómaost við stofuhita
- 3 msk (45g) ósaltað mjúkt smjör
- 1 tsk pizzakrydd
- 1 tsk Pasta Rossa krydd frá Santa María
- 1/2 tsk hvítlauksduft
- 70 gr Rifinn Mozzarella
- 1/4 tsk salt
kryddblanda ofan á þarf:
- 1 msk birkifræ
- 1 msk sesamfræ
- 1 og 1/2 tsk Minced onion þurrkaður (fæst í stærri matvöruverlsunum)
- 1 og 1/2 tsk laukflögur (má sleppa ef þið finnið ekki ,en veit þær fengust í Costco)
- 1 tsk gróft salt
- 2 msk (30g) bráðið ósaltað smjör
Aðferð
Deigið:
- Þið ráðið hvort er notuð hrærivél eða ekki. Ég kaus að hnoða þetta bara í höndunum
- Byrjið á að setja sykur, ger og volga mjólk saman í skál og látið standa í 5 mínútur, þar til það er komin þykk froða ofan á.
- Blandið restinni af þurrefnunum saman og hrærið létt
- Bætið nú við egginu og smjörinu ásamt gerblöndunni og hnoðið vel saman
- Ef deigið er of klístrað, bætið þá við það hveiti, 1-3 msk smátt og smátt þar til deigið hættir að vera klístrað
- Hnoðið þar til verður úr falleg kúla
- Breiðið stykki eða setjið filmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 1 klst á volgum stað (Mér finnst best í gluggakistu yfir miðstöðvarofni)
Rjómaostfyllingin:
- Þessu er öllu hrært saman í skál með þeytara þar til orðið silkimjúkt og slétt.
- Geymið svo við stofuhita meðan þið gerið kryddblönduna ofan á brauðið.
Fræblandan:
- Hér er öllu kryddi og fræum blandað saman og hrært vel í.
- Bræðið svo smjörið og setjið til hliðar til að smyrja síðar ofan á brauðið.
Aðferð við að gera brauðið til
- Hér læt ég fylgja með greinagóðar myndir af ferlinu, en trúið mér þetta er bara skemmtilegt og lítið mál að gera.
- Þegar deigið er búið að hefast í 1 kst fletjið það þá út í ferning
- Smyrjið svo rjómaosta blöndunni á ferninginn allan vel, og klárið alveg ostinn
- Skerið svo út hringi með glasi eða hringskera ( ég notaði 7,5 cm þvermál)
- Klemmið svo hvern hring saman eins og koss eða lítinn hálfmána (sjáið á myndinni fyrir ofan) þ.e brotið saman í miðju
- Raðið svo hverri loku í smurt brauðform. Raðið þeim þétt saman
- Þegar þið eruð búin að fylla formið leggið þá stykki yfir brauðið og leyfið því að hefast í 45 mínútur á volgum stað
- Þegar brauðið hefur hefast í annað sinn er það smurt með 2 msk af brædda smjörinu
- Að lokum er svo fræblöndunni dreift ofan á brauðið, magn eftir smekk (ekki nota alla blönduna það er of mikið)
- Brauðið er svo bakað við 175 C°blástur í 45 mínútur.
- Kíkið samt á brauðið eftir 30 mínútur og ef ykkur finnst það verða of dökkt ofan á, takið það þá út og setjið alpappír yfir það.
- Látið það standa á borðinu með álpappírinn yfir í 15 mínútur og þá ætti það að vera til
Þetta brauð er hverrar krónu og mínútu virði, passið ykkur bara að það er hættulega ávanabindandi…….
María