Ég veit varla hvar ég á byrja á að lýsa þessari pizzu, en hún var svo bilað góð að ég er enn að hugsa um hana. Þessi varð til fyrir nokkrum dögum síðan og alveg óvart.
Mig langaði svo svakalega í eitthvað rosalega gott og djúsi, og þá aðallega beikonrúllurnar þessar hér. Ég hafði samt ekki þolinmæði í að fara að dúllast við að gera þær, vegna svengdar.
Hugmyndin kviknaði því út frá þessum rúllum og til að gera langa sögu stutta þá brá ég á það ráð að nota Ikea pizzadeig sem ég átti til. Á það setti ég svo það sama og er sett í beikonrúllurnar.
Úr varð þessi vægast sagt tryllta, pizzasósulausa pizza, sem þið bara verðið að lofa mér að þið munið prufa.
Þessi var svo svakalega góð að ég mæli með henni sem Gourmet pizzu í boð eða veislur jafnvel. Ef þið elskið góða brauðrétti, þá er þessi alveg að fara að hitta í mark hjá ykkur, en ég sver að hún er trufluð.
Þið bara verðið að lofa mér að gera hana, þið verðið ekki svikinn.
Hráefni
- Ikea pizzadeig (mér fannst það mjög gott)
- Rifinn Mozzarella
- Havarti ost
- Grænan gæða aspas (ég notaði Green Giant í glerkrukku)
- Beikon
- Matarolía (má sleppa ef vill)
- Roasted garlic and pepper frá Santa María (Má sleppa)
Aðferð
- Fletjið út pizzadeigið og forbakið það í 4-5 mínútur. Stingið göt á deigið áður en það fer inn í ofninn svo það blási ekki upp
- Athugið ekki setja neina pizzasósu
- Penslið endana með matarolíu og kryddið þá með Santa María hvítlaukskryddinu
- Setjið svo í hlutföllunum 50/50 mozzarella og Havarti ost. Ég kaupi íslenska Havartí og ríf hann niður í rifjárni
- Setjið næst aspasinn á pizzuna
- Klippið beikonið niður í 3 búta hverja sneið og raðið því hráu á pizzuna, magn eftir smekk
- Bakið svo pizzuna á 200 c°í 10 -15 mínútur eða þar til gyllinbrún
Punktar
Athugið að á þessari pizzu er ekki pizzasósa heldur er allt sett beint á botninn.
Verði ykkur að góðu
María