-Samstarf-
Þessi spagettí réttur er akkurat eins og ég vil hafa hann, afar einfaldur sem tekur stuttan tíma að gera en samt svo góður.
Spagettíið er baðað í silkimjúkri sósu þar sem uppistaðan er rjómi, mozzarella og pecorino ostur.
Svo gefur sölt pancett, kastaníusveppir og spínat sósunni skerpu og gott salt bragð.
Ef þið finnið ekki pancetta má bara nota beikon í staðinn, en það er mjög svipað. Mæli samt með að nota pancettað ef þið finnið það.
Hér notaði ég svo auðvitað De Cecco pasta sem ég nota langmest enda hágæða þurrkað pasta sem bragðast eins og ferskt pasta.
Hráefni
- 3 msk ólífuolía
- 150 gr kastaníusveppir
- 2 hvítlauksrif
- 1 tsk fínt borðsalt
- pipar
- 250 gr pancetta eða beikon
- 1 pakki De Cecco spagettí
Rjóma/ostasósa
- 1/2 líter rjómi
- 300 ml eða 3 dl nýmjólk
- 45 gr hveiti
- 200 gr pecorino ostur
- 450 gr rifinn mozzarella
- 200 gr spínat
- Hnefi af ferskri basiliku
- 1/2 dl Philadelphia rjómaostur með hvítlauk
Aðferð
- Byrjið á að setja vatn í pott og salta mjög vel nánast eins og sjóvatn, látið suðuna koma upp og setjið spagettíið út í og sjóðið í 10-11 mín
- Á meðan skerið þá sveppina í 4 parta og steikjið upp úr 3 msk ólífuolíu á pönnu, saltið með 1 tsk fínu borðsalti og piprið
- Þegar sveppirnir eru steiktir og allur safinn gufaður upp af þeim bætið þá pancetta við út á pönnuna og steikið saman
- Þegar það er til merjið þá 2 hvítlauksrifin yfir og hrærið vel saman við lægsta hita
- Dreifið næst hveitinu yfir allt á pönnuni og hrærið vel og leyfið því að hitna saman eins og í eina mínútu til að losna við allt hveitibragð
- Hækkið nú hitann upp í miðlungshita og hellið rjómanum út á og hrærið vel saman þar til er orðið kekkjalaust og þykkt
- Bætið þá mjólk og philadelphia ostinum saman við og látið bráðna vel saman og þykkna, sjóðið þar til er orðið kekkjalaust og silkimjúkt
- Næst er svo að bæta rifnum pecerino osti út í ásamt mozzarella ostinum. Leyfið ostinum alveg að bráðna í sósunni en fyrst er hann mjög teygjanlegur og gerir tauma í sósuna
- Hrærið í sósunni þar til osturinn er hættur að teygjast og sósan orðin silkimjúk eða kannski eins og 5-10 mín max
- Bætið þá spínatinu smátt og smátt út á ásamt basilikinu og hrærið vel saman þar til spínatið er orðið mjúkt en það tekur enga stund, smakkið til og saltið og piprið ef ykkur finnst vanta salt
- Sigtið svo spagettíið en alls ekki skola það heldur setjið það beint út á sósuna og hrærið saman
- Berið fram með hvítlauksbrauði og góður fersku salati sem dæmi
Verði ykkur að góðu
María