Þessi jólin ákvað ég að prófa að gera Piparmyntu ljóskur með hvítu súkkulaði. Útkoman varð skemmtilega öðruvísi, jólaleg og virkilega bragðgóð.
Þær eru í senn seigar og mjúkar og held ég að sé óhætt að segja að hvítt súkkulaði og piparmynta tala afar vel saman. Ljóskur, eða Blondies, eru í raun hvít útgáfa af Brúnkum, eða Brownies.
Í stað dökkts súkkulaðis er notað hvítt og ég gæti alveg trúað að gott væri að setja makademíuhnetur í hana, án þess að hafa prófað það.
Kökurnar er gott að skera í litla bita og er hver biti mjúkur og seigur í senn, með stökku hvítu súkkulaði og mildu piparmyntubragði, sem eins og áður sagði, fléttast dásamlega saman.
Hráefni
Botn:
- 3/4 bolli bráðið smjör
- 3/4 bolli sykur
- 2/3 bolli ljós púðursykur
- 3 egg við stofuhita
- 1 tsk vanilludropar
- 2 tsk piparmyntudropar
- 2 2/3 bollar hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 2 plötur hvítt gróft saxað súkkulaði
Krem:
- 450 gr rjómaostur
- 1 bolli flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 3/4 bolli piparmyntubrjóstsykur eins og jólastafir eða Bismark brjóstsykur
Aðferð
Botn:
- Hrærið saman í eina skál; bræddu smjöri, sykri, púðursykri, eggjum, vanillu og piparmyntudropum. Ekki stífþeyta eða hræra mikið heldur bara þannig að hráefnin séu orðin ágætlega blönduð saman.
- Takið aðra skál og setjið í hana hveitið, lyftiduftið, gróft skorið súkkulaðið og saltið og hrærið því saman með matskeið.
- Blandið svo hveitinu smátt saman við eggjablönduna og hrærið þar til blandast saman en ekki of mikið. Ekki þeyta á full speed heldur bara annað hvort hafa á lægsta hraða eða helst gera með sleif í höndunum. Deigið getur verið stíft og erfitt að hræra en þannig á það að vera.
- Setjið smjörpappa í bökunarskúffu, helst í stærð 33x22, ef þið eigið, og dreifið deiginu jafnt yfir skúffuna.
- Bakið svo á 175 c°í 30-35 mínútur. Gott er að stinga hníf í miðjuna og ef hann kemur hreinn upp þá er kakan til.
- Kælið vel áður en kremið er sett á.
Krem:
- Þeytið saman rjómaost, flórsykur og 1 tsk af vanilludropum.
- Þeytið þar til kremið verður loftkennt og létt.
- Þegar kakan hefur kólnað, smyrjið þá kreminu yfir hana alla og skreytið svo með mulnum piparmyntustöfum eða Bismark brjóstsykri.
- Ég notaði mortel til að mylja brjóstsykurinn en það má líka setja hann í poka og lemja með kökukefli. Hann á ekki að verða að dufti en ekki heldur of grófur.