Vertu heit/ur í Warm Fit…. tíma hinna gleymdu vöðva

Lífstíll & heilsa

Ég bara verð að fá að segja ykkur frá uppáhalds líkamsræktinni minni þessa dagana, en ég held svei mér þá að ég hafi aldrei átt mér slíka áður. Venjulega hefur mér alltaf fundist kvöð að fara í ræktina og að fara á göngubretti……úff ég dey bara inn í mér á meðan ég er að telja niður tímann þar til göngubrettið stoppar. Þannig er ég bara,  en æfingartæki og bretti eiga mjög illa við mig. Ég er búin að vera frekar líkamlega illa farin síðasta árið, en ég eignaðist 3 börn með mjög stuttu millibili. Það má eiginlega segja að ég hafi verið ólétt stanslaust á 3 ára tímabili, en 3 börnin mín yngstu fæddust öll á sitthvoru árinu, 2013, 2014 og 2015. Klikkun ! Já ég veit,en alveg hrikalega gaman 🙂

Ég hef glímt við brjósklos síðan árið 2009 og á meðgöngunum var ég hræðileg af grindargliðnun og var komin með hækjur. Undir lokin á síðustu meðgöngu endaði ég svo í hjólastól. Þetta olli því að ég átti mjög erfitt með að finna mér hreyfingu við hæfi. Ég gat ekki farið í brjálaða action tíma né tækjasal. Gönguferðir urðu til þess að ég læstist í annari mjöðminni og ég gat ekki stigið í annan fótinn á eftir. Því var það mikil gleði þegar ég slysaðist inn í einn Warm Fit tíma í Hress í Hafnarfirði, og mikið svakalega hefur það gert miklar breytingar fyrir líkama minn og sál.

Warm Fit er hugarfóstur Lindu, eiganda og framkvæmdarstjóra Líkamsræktarstöðvarinnar Hress í Hafnarfirði. Hress er lítil rótgróin líkamsræktarstöð  sem hefur verið starfrækt frá árinu 1987, alla tíð í Hafnarfirði. Linda og Jón eigendur þess hafa átt og rekið Hress frá 1992 svo það má með sanni segja að Lindu sé treystandi í því sem hún er að gera, enda svakalegur reynslubolti í bransanum.

Warm Fit fer fram í upphituðum sal með dempaðri birtu, nánast myrkri,  og getur hitinn alveg farið upp í 39 c°. Á fyrstu vikunni hélt ég að ég dræpist inn í þessum hita og var ég alltaf staðsett við hurðina til að geta hlaupið fram og náð andanum. Ég var hins vegar mjög fljót að venjast hitanum, og má segja að ég sé algjörlega orðin háð honum. Einnig var þvílík úthreinsum á húðinni fyrstu tvær vikurnar og steyptist ég út í bólum og var að farast úr harðsperrum. Í dag er húðin á mér þvílíkt hrein og fín, og finn ég mikinn mun á mér verkjalega séð. Auk þess finnst mér ég hafa öðlast aukinn styrk og liðleika.

Þar sem það er mjög mikil streyta í umhverfi mínu þá er Warm Fit tíminn rosa gott afdrep fyrir mig. Það er mikið um barnsgrátur og læti hér á heimilinu og getur það alveg farið með mann stundum. Það er ekki séns að ég myndi fara í tíma þar sem er brjáluð tónlist og öskur því ég held ég færi þá bara yfir um 😉 Þess vegna sækist ég í þessa tíma, því þar eru aldrei nein læti og andrúmsloftið er rólegt og notalegt. Ég er rosa lítil jógakona og leiðist það. Því eru þessir tímar að henta mér svona vel því þar er blandað saman því besta úr öllu öðru. Tónlistin er skemmtileg og mátulega hátt stillt og þar getur maður hagað sér eins og maður vill í æfingunum. Fólk með meiðsli getur æft þar á sínum eigin forsendum. Í mínu tilfelli get ég t.d ekki gert allar æfingar sem reyna mikið á mjóbak og því er alltaf valmöguleikar til að notast við. Í tímunum eru allt frá 20 ára til 75 ára og eru flestallir tímarnir mjög þéttsetnir. Allir fá sitt út úr tímanum og er þín dýna þín landhelgi og má enginn stíga á hana annar en þú.

Æfingarnar koma úr ýmsum áttum en í Warm Fit er blandað saman  Pilates, Jóga, Jane Fonda, framstigi og hnébeygjum svo dæmi sé tekið. Þar er einnig unnið með jafnvægi, styrk og liðleika. Stundum eru tekin létt lóð með mörgum endurtekningum og eru teygjur, boltar eða foam flex rúllur notaðar. Gæti bara ekki verið betra !

Svo kemur það besta en það er djúpslökun í lokin þar sem slökunartónlist er sett á, ljósin alveg slökkt og kaldir bakstrar í boði með ilmolíum. Eftir hvern tíma fer maður svo endurnærður og slakur út, og algjörlega tilbúin að takast á við streituvaldandi aðstæður.

Ég tel mjög mikilvægt að passa vel upp á vökvabúskapinn og söltin í líkamanum þegar maður er að svitna svona mikið eins og í heitum tímum. Stundum dugar ekki vatn eitt og sér til þess, þar sem mikið af söltum skolast út með svitanum og vatn bætir það ekki upp. Þess vegna ákvað ég að kaupa mér  freyðitöflur sem eru með söltum og sykrum í réttum hlutföllum í apóteki og heita Resorb Original. Þær tek ég eingöngu þegar mér finnst ég vera slöpp og máttlaus en ég tel það sem merki um að nú se líkaminn orðin þurr og vanti sölt. Ég kýs að nota þetta frekar en að vera þambandi dísæta íþróttadrykki, og hefur það hjálpað mjög mikið til að halda orku.

Ef þú ert að glíma við meiðsli, ert stirð/ur eða langar að koma þér af stað í ræktinni, en ert ekki í þínu besta formu, þá mæli ég eindregið með Warm Fit.  Tímatöfluna í Hress má finna hér.

Þegar ég er að velja mér æfingastöð skoða ég alltaf fleiri þætti en tæki og aðstöðuna til að æfa. Það skiptir mig máli að líða vel inn á stöðinni og fá góða þjónustu þar sem starfsfólk kannast við mann. Þess vegna hentar Hress mér svakalega vel. Hress er í raun lítið krúttað fjölskyldufyritæki með 50 manns í vinnu. Húsnæðið er á mjög góðum stað í Hafnarfirði og það sem mér finnst svo gott við að æfa þar líka, er að það er alltaf hægt að fá ferskt loft að utan. Þar eru opnanlegir gluggar eða svalir í öllum æfingarsölunum. Stöðin er afar snyrtileg og býður upp á barnagæslu, boostbar og einkaþjálfun. Í Hress er einn heitur salur, einn hjólasalur , einn stór þolfimisalur auk tækjasals svo það er alveg fullkomið combó.

Æfingaaðstaðan í Hress 

Þar eru kenndir 80-100 tíma á viku sem er árstíðarbundið og byrjar oft að fækka eftir páska. Sumir tímar eru þó inni allt árið. Vinsælustu tímarnir eru kl 6 á morgnana og í hádeginu.  Hress er mjög duglegt að koma með skemmtilega tilbreytingu. Þar eru haldnir viðburðir eins og Black Light joga, Trommujóga og Hressleikarnir sem eru góðgerðarleikar. Hressleikarnir eru mjög gleðilegur viðburður en þá er veikur einstaklingur styrktur. Hressleikarnir er líkamleg áskorun þar sem fólk borgar fyrir og allur ágóði rennur til þess aðila  sem verið er að safna fyrir. Hress hefur alltaf valið eina fjölskyldu sem þarf á því að halda og hefur það skipt sköpum í lífi margra.

Hressbarinn og kaffiaðstaðan. Fallegt umhverfi með nýjustu tímaritunum. 

Eins og áður kom fram er Boost bar í Hress sem  er mjög vinsæll og alltaf í sókn en þar er farið að bjóða upp á engiferskot og harðsoðin egg auk boostdrykkja, íþróttadrykkja, próteinstykkja og kaffi. Efri hæðin er í raun bara eins og lítið kaffihús. Þar sitja æfingarfélagar saman og drekka kaffi eða boost og maður sér greinilega að stöðin á marga fastakúnna sem hafa elst með henni. Ég er enn að sjá þar andlit sem ég sá síðast þegar ég var að æfa  fyrir mörgum árum síðan. Þar er einnig boðið upp á barnagæslu, en Hress var fyrst á sínu sviði til að bjóða upp á gæslu og átaksnámskeið. Meðlimir þar eru margskonar en þar æfa fatlaðir, blindir, fólk með þroskaskerðingu og fer þetta allt mjög fallega saman. Þar er einnig mjög breiður aldur að æfa þar sem í Hress er eitthvað að finna fyrir alla, aldraða sem unga. Þau bjóða t.d. upp á unglinganámskeið og hafa gert í mörg ár.


Barnagæslan 

Fyrir mína parta er Hress mín stöð og mæli ég eindregið með því að þið kynnið ykkur hana því þar er allt til alls og yndislegt starfsólk starfandi. Stöðin er alltaf hrein og mjög snyrtileg og allt mjög aðgengilegt.

Öllu snyrtilega uppraðað og aðgengilegt 

Það er líka mikilvægt að ef maður ætlar að endast í ræktinni að finna sér tíma eða æfingar við sitt hæfi. Tel ég að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Hress og mæli ég eindregið með þessari líkamsræktarstöð af öllu mínu hjarta og sál.

  Jæja en nú verð ég að drífa mig í Warm Fit.

Verið sæl að sinni 😉

María 

2 Comments Write a comment

Please add an author description.

2 Comments

  • Hekla Guðmundsdóttir April 12, 2017

    Mikið rosalega er ég sammála þér. Það er alltaf svo gaman í Hress. Rosalega persónuleg stöð, frábærir tímar með góðum kennurum og barnagæslan er algjört gull 🙂

    • maria April 14, 2017

      Hæ Hekla :)já ég er svo sammála líka með barnagæsluna börnin mín elska að vera þar og svo er bara þar allt til alls fyrir þau yngri og eldri 🙂

Leave a Reply

Pin It on Pinterest