Uppgötvið hinn raunverulega Spán

höf: maria

Þar sem nú er loks komið sumar halda margir erlendis. Fyrir þá sem kjósa að fara til Spánar verða oft þessir hefðbundnu ferðamannastaðir, Costa Del Sol, Benidorm, Mallorca og Kanaríeyjar fyrir valinu. Það er svo sem gott og blessað enda margt í boði þar fyrir ferðamenn. Ég vefengi þó hversu ,,authentic” þessir staðir eru enda byggðir upp með það í huga að geðjast ferðamönnum.

Hér ætla ég hins vegar að kynna fyrir ykkur hinn eina sanna Spán. Spánn hefur upp á svo ótalmargt annað að bjóða en sólarstrendur og hótel. Spánn er 4. stærsta land Evrópu og liggur það við Miðjarðarhaf og Atlantshaf. Þar er að finna stórbrotið landsslag, fjölbreytta matarmenningu, ótal menningarafbrigði og fjölda sögulegra minja. Á Spáni eru t.d. að finna skíðasvæði í snæfjöllunum Sierra Nevada þaðan sem ég er ættuð, stóra fjallgarða eins og Pýreneafjöllin og Picos de Europa,  fagra græna dali og fagurgræn rigningarsvæði eins og Astúrías sem talið er eitt af fallegustu  landssvæðum Spánar.

Pýreneafjöllin, Picos de Europa og skíðasvæði í Sierra Nevada 

Það er ekki hægt að segja að eitthvað eitt sé spænsk menning, þar sem á Spáni er að finna ótal afbrigði af spænskri menningu. Sú ímynd sem Spánn er helst þekktastur fyrir er Flamenco, nautabanar og spænska nautið. Tapasréttir, senjórítur og sangría er líka sterkt menningarafl Spánar. Það sem hins vegar ekki margir vita er að hér er eingöngu um Andalúsíska menningu að ræða, en Andalúsía er stærsta landssvæði Spánar, staðsett á Suður-Spáni. Þið sem farið til Costa Del Sol, eruð stödd í Andalúsíu.

Svipmyndir frá Andalúsíu sem ég hef tekið í þorpinu mínu Lugros . Fallega senjórítan er Gabríela dóttir mín á 8 ára afmælinu sínu

Spánn er fullur af sögulegum minjum. Bæði frá Máraveldi Spánar, Rómverjum, Sígaunum, styrjöldum og frumbyggjum. Þar er að finna fjöldan allan af kastölum sem dæmi, Cuevas sem eru hellahús sígauna, pýramída á Tenerife og fræga hella í Kantabríu, með frumstæðar teikningar á veggjum sem sanna tilvist manna í Kantabríu fyrir 15.000 árum, svo fátt eitt sé nefnt.

Cuevas er hýbíli spænskra sígauna sem byggja sér hús inn í fjallshlíð. Þar er hlýtt inni á veturna og svalt á sumrin 

Pýramídarnir í Guimar á Tenerife og mynd úr hellunum í Kantabríu

Alls eru 17 meginlandsvæði á Spáni sem samanlagt hafa svo 50 héröð. Hefur hvert og eitt landsvæði sína mállísku (eða eigið tungumál), fána, menningu, matarsiði og þjóðbúninga. Sem dæmi er töluð katalúnska í Katólínu, Baskamál í Baskalandi, Majórkín á Mallorca og s.frv. Þessi 17 landssvæði eru Andalúsía, Aragon, Astúrías, Balearic eyjurnar, Baskaland, Kanaríeyjar, Kantabría, Castilla la Mancha, Castilla y León, Katalónía, Extremadura, Galisía, La Rioja, Madrid, Murcia, Navarra og Valencia. Við Íslendingar þekkjum kannski best af þessu Andalúsíu, Kanaríeyjar, Katalóníu og Mallorca en það eru helstu áfangastaðirnir sem flogið er til frá Íslandi.

Hér ætla ég aðeins að stikla á stóru varðandi þessi helstu landssvæði Spánar og fara hratt yfir þau, sum þó ítarlegra en önnur 😉

Ég sjálf er ættuð frá Andalúsíu, og er það mitt uppáhalds landsvæði á Spáni. Í  Andalúsíu er milt loftslag þó það geti orðið ansi kalt upp í snæfjöllunum Sierra Nevada og jafnvel snjóað þar á veturnar. Á sumrin er hins vegar steikjandi hitt þar. Sumar borgir Andalúsíu eru fullar af minjum frá tímum Máraveldisins. Þekktust er eflaust Alhambra höllin í Granada sem engin ætti að missa af að sjá. Helstu minjar Mára er einnig að finna í borgunum, Sevilla og Cordoba.  Fiesta eða útihátíðir eru aldrei langt undan í Andalúsíu og eru borgirnar Granada og Almería rausnarlegastar á tapasréttina. Í Granada t.d. þarf ekki að greiða sérstaklega fyrir Tapasrétti  þar sem þeir koma ávallt óumbeðnir með drykk sem er keyptur.

Alhambra höllinn er sterkasta aðdráttarafl Granadaborgar og trónir þessi fallega márahöll yfir borginni 

Ef þið eruð á leið til Andalúsíu eða Costa del sol, mæli ég með að þið skellið ykkur á bílaleigubíl og keyrið um. Það er mjög gott að keyra á Spáni og finnst mér Spánverjar til að mynda mun kurteisari í umferðinni en við Íslendingar, þó margir haldi annað 😉

Kíkjið aðeins inn í landið á fallegu hvítkölkuðu þorpin. Mijas er t.d. þorp sem margir Íslendingar á Costa del Sol heimsækja, það er afar fallegt og helst þekkt fyrir asnana sína. Skellið ykkur jafnvel í bíltúr upp í Sierra Nevada fjöllin til Lugros, litla fjallaþorpsins míns, þaðan sem ég er ættuð. Fáið ykkur að borða alvöru spænskan mat á veitingastað sem er fyrir heimafólkið. Kíkið svo á eina flamencosýningu, nautaat og svo er auðvitað algjört möst að fara í Alhambrahöllina í Granadaborg, en í Granada er að finna frábæra veitingastaði og verslanir. Í Andalúsíu er talað Andaluz sem er í raun spænska með Andalúsíkum hreim svo það er ekki um eiginlega mállýsku að ræða þar. Flamencokjólar og Sevillanas er þjóðardans Andalúsískrar menningar.

Þar sem ég er ættuð frá Andalúsíu hef ég mest vit á þeirri matarmenningu og eru uppáhalds Andalúsísku réttirnir mínir Fritada de Pollo, Pollo al ajillo, Arroz con gambas, Potaje, Arroz con leche og Churros con Chocolate svo fátt eitt sé nefnt. Þessa rétti ættuð þið að getað pantað á real spænskum veitingastöðum. Nú þegar eru komnar nokkrar af þessum uppskriftum inn á vefinn, en þið getið farið beint inn á þær með því að smella á nöfnin á þeim.

Fritada de pollo, pabbi minn og Gabríela dóttir mín að snæða besta spænska matinn hennar titu Paz og ég að elda í eldhúsinu í Lugros 

 Astúrías er landsvæði sem liggur á norðurströnd Spánar með borgina Galiciu í vestri og Cantabríu í austri. Segja má að Astúrías sé grænasta landssvæði Spánar, enda eins og segir rignir þar mikið. Á svæðinu má finna fagrar strendur og innar í landinu er að finna hinn fagra fjallgarð Pico De Europa. Fyrir þá sem láta ekki veðrið aftra sér frá ferðalögum er Astúrías landssvæði á Spáni sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Astúrias Pico de Europa 

Kanaríeyjar eru eyjar sem tilheyra Spáni og eru staðsettar við norð-vestur strönd Afríku. Eyjarnar eru í einu af 20 efstu sætunum yfir vinsælustu ferðamannastaði í Evrópu, og njóta mikilla vinsælda hjá eldri borgurum. Loftslagið þar er afar milt á veturnar. Talið er að allt að 12 miljónir gesta heimsæki eyjarnar á ári hverju og dreifist ferðamannatímabilið mun jafnara yfir árið þar heldur en gengur og gerist á meginlandi Spánar. Það vill t.d. flest leggjast í dvala á helstu ferðamannastöðum á meginlandinu yfir hörðustu vetrarmánuðina og er t.d. lítið um flug héðan til Spánar á þeim tíma. Vinsælustu eyjarnar á Kanarí eru Lanzarote, Tenerife, Gran Canaria og Fuerteventura. Ef þið eruð í leit að rólegri stöðum á Kanarí er mælt með eyjunum El Hierro, La Palma og La Gomera.

Fyrir útivistarfólk er Aragon draumastaður þar sem hægt er að fara í fjallgöngur um fögur fjöll, gljúfur og dali. Aragon svæðið er helst þekktast fyrir sína sláandi náttúrufegurð og fjölbreyttni. The Ordesa National park er þekktast á svæðinu en það er gullfallegur friðaður þjóðgarður sem tilheyrir að hluta til Pýrenea fjöllunum.

Ordesa parque nacional monte perdido

Baskaland er afar sjálfstætt landssvæði sem liggur að landamærum Frakklands og hefur þar verið barátta um að slíta sig frá stjórn Spánar og fá að vera sjalfstætt land. Þar er að finna borgirnar Bilbao og San Sebastian sem hafa upp á margt að bjóða. Hins vegar hefur Baskaland fengið á sig neikvæðan stimpil vegna sjálfstæðisbaráttu ETA sem hafa verið þekktir fyrir að sprengja bíla og veitingastaði upp í borginni Bilbao m.a. Það er samt orðið langt um liðið frá því að ETA hefur látið til skarar skríða og er því fólki vel óhætt að ferðast um Baskaland. Í Baskalandi er töluð sér mállíska sem er gjörólík spænsku. Einnig er nafnahefðin þar allt önnur en gengur og gerist á Spáni. Föðursystir mín á t.d. Baskneska tengdadóttir sem skírði barnabörnin hennar nöfnum sem hún getur ekki borið fram svo framandi eru þau fyrir hana.

Frá Baskalandi 

Balearic eyjarnar samanstanda af Majorka, Menorka, Ibiza og Formentera og eru þær hvað þekktastar fyrir túrisma, en Þjóðverjar og Bretar hafa svo til lagt undir sig eyjarnar. Þær eru afskaplega fallegar og fer það oft framhjá ferðamönnum sem eiga það til að hanga við hótelin og ströndina og átta sig ekki á því um hvílíka fegurð er þar að ræða. Ef þið eigið leið þangað, hikið þá ekki við að leigja ykkur bílaleigubíl og keyra nokkra kílómetra inn í landið. Það gæti komið ykkur á óvart að sjá fallegu spænsku heimaþorpin þar sem er engan túrisma að finna. Á Mallorca er talað Mallorkín sem er í raun katalúnska sem er töluð með smá Mallorka hreim. Þar er þjóðbúningurinn algjörlega ólíkur í alla staði flamenco fötum Andalsúsíu en þau kallast oft pokaföt. Matarmenningin þar tíðkast mest af grænmeti, svínakjöti, ólífuolíu og sjávarfangi eins og svo víða um Spán.

Balearic eyjarnar

Castilla la Mancha er staðsett á milli Madridar höfuðborgar Spánar og Andalusíu. Landssvæðið er helst þekkt fyrir hinar frægu vindmyllur Don Quijote og sína dásamlegu osta.

Vindmyllur Don Quijotes í Castilla la Mancha

Kastílía og Leon hefur mikla sögu og liggur að 10 landamærum annarra héraða á Spáni og að Portúgal. Rómverska borgin Segovia er ein af hinum mörgu hápunktum landsvæðisins ásamt háskólaborginni Salamanca.  Í Segovía, Burgos og Leon er að finna einar fallegustu kirkjur landsins.

Segovia 

Katalónía er best þekkt fyrir höfuðborg sína Barcelona sem er heimaborg hins fræga arkitekts Gaudís og bygginga hans. Barcelona er einnig þekkt fyrir fótboltalið sitt FC Barcelona eða Barsa eins og margir kalla það. Í Katalóníu er að finna fleiri fagrar sögulegar borgir en Barcelona en þar eru einnig borgirnar Gerona og Tarragona. Ég er alin upp í Gerona til 5 ára aldurs. Þar gekk ég í skóla þar sem eingöngu var kennt á katalónsku en katalónska er opinbert mál í Katalóníu og er gjörólíkt spænsku. Costa Brava ströndina er vel þess virði að heimsækja en strendurnar við Costa Brava strandlengjuna eru afar fallegar. Ég bjó sem krakki í bæ sem heitir Palafrugell og er hann í nágranni við strandbæjina  Calella og Llafranc. Mér finnst þeir báðir mjög fallegir og kostirnir við þá er að þar er túrismin ekki í formi massatúrisma heldur eru þar lágreist hótel og fallegir gististaðir ásamt fjöldanum öllum af fínum veitingastöðum.

Katalónski fáninn og Sardanadansar sem eru þjóðdans Katalana

Ströndin Calella og Llafranc

Extremadura er staðsett á vestur Spáni við landamæri Portúgals. Margir telja þetta landsvæði eitt best geymda leyndarmál Spánar þegar kemur að ferðaþjónustu. Þar er að finna hina rómversku borg Merida sem er líklegast hápunktur svæðisins og einnig er þar að finna máraborgina Caceres. Sögulegu bæirnir Trujillo og Guadalupe ásamt þjóðgarðinum Monfrague eru enn önnur kennileiti landsvæðisins sem þetta falleg samfélag hefur upp á að bjóða.

Caceres í Extremadura 

Galísía er talin ein af hinum 7 keltnesku borgum Evrópu, staðsett á norð-vestur Spáni. Svæðið á mun meira skylt við keltneska menningu en hina spænsku latíno menningu. Ef ykkur langar í bestu sjávarrétti Spánar þá skulið þið fara til Galisíu en Galisía er þekkt fyrir þá. Fólkið þar er talið afar vinalegt og er Santiago de Compostela aðal aðdráttarafl svæðisins. Þar er einnig að finna falda dali og villtar strendur. Það er eiginlega alveg magnað að sjá hvað menningin á svæðinu á margt sameiginlegt með Írlandi en þar eru t.d. hnésíðar stuttbuxur ekki ólíkar skotapilsum og sekkjapípur aðalhljóðfæri Galísíksar tónlistar.

Menning Galisíu á mun meira skylt við keltneska menningu en hina spænksu latínómenningu

La Rioja er eflaust þekktasta vínhérað Spánar en þar eru að finna yfir 500 vínkjallara. Þar er hægt að fara í skipulagaðar vínsmökkunarferðir. Bærinn Haro er talin vinsælastur í þeim flokki en í bænum  Logroño er að finna frábæra Tapasstaði. Svæðið er einnig afar hentugt fyrir dreifbýlisferðamennsku og útivistarfólk þar sem er að finna góðar gönguleiðir.

Rioja vínekrur, vínkjallari og fallegar flöskur Rioja víns

Madrid er ein þekktasta og tískulegasta borg Evrópu en hún er jafnframt höfuðborg Spánar. Að sjálfsögðu er borgin þekkt fyrir sitt fræga fótboltalið Real Madrid. Í Madrid búa yfir 6 milljónir íbúa og býr helmingur þeirra í borginni sjálfri en ekki í héruðunum í kring. Í Madrid er að finna stórfenglegar byggingar eins og Royal Palace sem er stærsta höll vestur Evrópu. Einnig er þar að finna fallegar kirkju, torg og góðar verslanir.

Madrid og Real Madrid skjaldamerkið 

Costa Calida ströndin er eflaust sterkasta aðdráttarafl Murcia. Þar er einnig að finna vandaða golfvelli á heimsmælikvarða og frábæra köfunarstaði. Innar í landssvæði Murcia er svo að finna þjóðgarðinn Natural de Sierra Espuña sem er vaxandi áfangastaður fyrir göngugarpa.

Golfvellirnir í Murcia héraði eru með þeim bestu á heimsmælikvarða

Navarra Pamplona er einna helst þekktast fyrir hlaupandi naut á eftir fólki um götur Pamplona. Á hverju ári fer þar fram nautahlaup þar sem stórhættulegum spænskum nautum er hleypt lausum út á götur bæjarins og látin hlaupa á eftir fólki. Hefur þessi viðburður stórskaðað fólk og kostað marga lífið. Þar sem Spánverjar eru mjög fastheldnir á allt sem telst spænsk menning, þá kemur ekki til greina að hætta við nautahlaupið í Pamplona og tekur fólk hiklaust þátt ár eftir ár.

Nautahlaupið í Pamplona 

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar á eftir Madrid og Barcelona. Valencia liggur mitt á milli Katalóníu og Murciu og liggur við Miðjarðarhafið. Í borginni er að finna fjöldan allan af lista og vísindasöfnum og eru viðburðir eins og bikarkeppni í amerísku siglingakeppninni og Formula 1 Grand prix haldnir þar í vaxandi mæli. Aðal aðdráttarafl Valencia er þó hiklaust Costa Blanca ströndin,þangað sem fjöldinn allur af Íslendingum safnast á hverju sumri á Benidorm. Alicante er staðsett í Valencia héraði og er án efa mest flogið þangað frá Íslandi af öllum áfangastöðum Spánar.

Myndir frá Valencia 

Að lokum langar mig að koma inn á spænska matarmenningu en spænskur matur er svakalega góður ef um raunverulegan spænskan mat er að ræða. Passið ykkur á því að oft eru veitingastaðirnar sem staðsettir eru við ströndina ekki þeir bestu. Þessir staðir lifa  oft eingöngu á sumarafkomunni og verða því að leita leiða til að lifa af veturinn en þá loka þeir jafnvel oft. Mikið af þessum stöðum horfa því í hverja krónu og elda stóra skammta, geyma í frysti og hita svo upp í örbylgju. Ekki alveg það besta þegar manni langar í góðan mat, en því miður er oft boðið upp á slæman mat fyrir ferðamennina.

Ég og Ragnar maðurinn minn að borða á frábærum spænskum veitingastað í Almeríu 

Farið á veitingastaði sem heimafólkið sækir. Oft þarf ekki að fara lengra en aðeins fjær ströndinni og upp í eða inn í bæjina eða borgirnar sjálfar sem þið eruð stödd í. Verið óhrædd að prufa eitthvað spænskt og framandi því það skilur svo miklu meira eftir sig en pizza, lasagna eða hamborgari sem mér finnst Íslendingar allt og oft fá sér á Spáni. Reynið að upplifa Spán og menninguna eins mikið og þið getið því það verða síðar minningarnar sem munu skilja eitthvað eftir sig  🙂

Hér getið þið fundið uppskriftir af nokkrum tapasréttum sem ég setti hér inn á vefinn

En nú hef ég þetta ekki lengra, venga vamos a tapear 😉

knús

María 

 

 

 

 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here