Þrjár barnsfæðingar á rúmum tveimur og hálfu ári

Lífstíll & heilsa Yngri kynslóðin

Eða til að vera nákvæm á tveimur árum og rúmum 7 mánuðum, og ekki tvíburar þar inni í. Ég er svo heppin og þakklát fyrir að eiga 4 heilbrigð börn. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið. Frumburðurinn fæddist árið 1999, svo kom litla hjörðin árin 2013, 2014 og 2015.  Ætla ekki að vera montin en verð þó að segja að mér finnst þetta bara svoldið magnað.

Reynir Leo 2013

Ég var svo sem ekkert mikið að spá í þessu og þetta var ekki planað. Það var ekki fyrr en ég fór að fá spurningar um hvað ég hefði eignast börnin á mörgum árum að ég fór að reikna dæmið og áttaði mig á að ég hefði fætt 3 börnin á rúmum tveimur og hálfu ári. Það næstum leið yfir mig þegar ég áttaði mig á því í fyrsta sinn. Mér finnst það algjörlega klikkað en jafnframt magnað.

Hér er ég ólétt af Viktoríu Ölbu

Bumba Númer 4 

Margir hafa spurt mig hvernig ég og við höfum hreinlega farið að þessu. Hvort það sé í lagi með mig eftir þetta og hvort líkaminn sé ekki bara ónýtur eftir svona margar meðgöngur í röð. Svarið er að ég tel mig bara hafa sloppið nokkuð vel.

Auðvitað gat það verið erfitt að vera kasólétt með smábörn. Sérstaklega þegar ég var ófrísk af Viktoríu Ölbu sem er yngst. Þá var ég ekki bara með eitt smábarn heldur tvö, og það gat alveg tekið á. Sérstaklega þar sem Mikael var enn það lítill að hann var ekki byrjaður að labba. Hann var mjög  þungur, enda fæddur 20 merkur og 57 sentímetrar.  Það var því ekki beint auðvelt að halda á honum, með rúmlega 17 marka barn í bumbunni, búandi í íbúð á annarri hæð með 29 tröppum upp. Maðurinn minn var mér auðvitað mikill stuðningur og bar allt sem hann gat borið upp tröppurnar þegar hann var til staðar.

Mikael 2014 

Ég er mjög lítið fyrir að tala um fæðingarsögur mínar en get þó sagt að allar fæðingarnar mínar fjórar voru mjög svipaðar. Deyfingarlausar og gengu mjög hratt og vel fyrir sig, þrátt fyrir að börnin hafi verið mjög stór. Meðgöngurnar gengu líka allar frekar vel fyrir sig.

Að eiga svona marga litla krakka með stuttu millibili er ekkert nema frábært. Klikkuð vinna og brjálað stuð, en svo mikils virði að ég myndi sko aldrei vilja hafa það neitt öðruvísi. Auðvitað koma tímabil þar sem maður er að örmagnast, t.d. ef það eru búin að vera mikil veikindi eða þegar fleiri en eitt barnið fer á erfitt þroskaskeið með tilheyrandi skapsveiflum, þá reynir þetta virkilega á.

Viktoría 2015

Við erum oftast vakin á nóttunni því það þarf alltaf einhver að pissa, en ég held að ég hafi ekki sofið heila nótt í um fimm ár. Oft þurfa allir krakkarnir að kúka á sama tíma og þá oftast á matmálstíma. Stundum grenja þau öll saman í kór, eða eitt grenjar meðan hin grenja ekki og svo tekur annað við af öðru. Það er stöðugt slegist um sama dótið og rifist um hver á að fá að velja hvað horft er á í sjónvarpinu eða hvaða bók er lesin.

Að vera hluti af þessum stóra systkynahóp getur oft alveg tekið á börnin. Þau eru í stöðugri baráttu og slást og rífast mikið. Þau eru alltaf að keppa og passa upp á sitt. Það er rifist um hver á að fá hvaða lit á diskum og glösum, hver á að sitja í hvaða stól og hver á að fá hvað. Þó til væri þrennt af öllu eins, myndu þau samt rífast um sama hlutinn. Stundum er maður orðin svo búin á því að maður telur niður í háttatíma, og fær svo auðvitað samviksubit yfir því, því þau eru aldrei jafn sæt og ljúf eins og þegar þau sofa.

Þrátt fyrir þetta eru þau mjög góðir vinir og elska að leika sér saman. Þau vita af hvort öðru og finna öryggi í því að vita af hvort öðru á leikskólanum. Með auknum þroska eru þau að tengjast meir og meir og verða betri vinir.

Það sem ég held að sé öðruvísi við að eiga börn með svona stuttu millibili en t.d fjölbura er að þegar eitt barnið er búið með visst þroskaskeið tekur annað barn beint við. Maður er að standa í einhverju sem venjulega tekur ákveðin tíma í kannski þrefalt lengri tíma en annars án þess að fá pásu á milli. Sem dæmi þá er ég búin að vera stöðugt með bleyjubarn núna í 4 ár og 8 mánuði, non stop og engin pása á milli. Þegar eitt barnið er búið með terrible two þá tekur næsta barnið beint við og svona koll af kolli.

Mjög oft einhver grátandi 

Eins og þið sjáið er þetta ekki bara dans á rósum og oft mikið hark og erfiði. Ég myndi samt ekki vilja hafa þetta neitt öðruvísi og elska hverja einustu stund með þeim. Við Raggi njótum þess í botn að eiga þessa litlu gorma sem gefa okkur meira en nokkur orð fá lýst. Að vakna á morgnana og fá knús frá þeim er það besta sem ég veit. Þau eru öll hrikalega skemmtilegir og flottir krakkar sem gera mig hreykna og montna af því að vera mamma þeirra.

Eigandi 18 ára stelpu sem nýflutt er að heiman, fékk mig til að átta mig á því að börnin okkar eru börn svo rosalega stutt. Tíminn með þeim flýgur áfram. Því hugsa ég alltaf um að fanga hvert einasta augnablik með þeim sama hversu auðvelt eða erfitt augnablikið er. Jafnt góðu og slæmu stundirnar, því einn daginn verða þau orðin stór og farin að heiman. Þá á maður eftir að sakna þessara augnablika svo mikið. Trúið mér að þetta gerist á methraða. Börnin eru lítil einn daginn og svo allt í einu orðin stór.

Munum að börnin okkar eru börn svo hræðilega stutt og því skulum við njóta hverrar stundar með þeim, meðan við höfum tækifæri til <3

 

Þangað til næst

Knús

María 

 

 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest