Spænskt borðhald með uppskrift af spænskum rétti

Matur & Menning

Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast þegar ég kem til Spánar að heimsækja fólkið mitt er að sitja við spænskt borðhald, en það gerist eins ólíkt íslensku borðhaldi og hægt er.

Spánverjar hugsa mikið um mat og spilar matur afar stórt hlutverk í hugum Spánverja. Þar er byrjað að spá í hvað eigi að hafa í matinn daginn áður og svo er oftar en ekki byrjað að elda snemma um morgunin. Oft þegar ég tala við föðursystur mínar í síma eða skype er spurningin um hvað ég hafi haft í matinn sú fyrsta á eftir Cómo estás ? Eða hvernig hefurðu það 🙂

Eins og ég hef áður komið inn á þá eru Spánverjar mjög fastheldnir á sína menningu, og þó nú sé komið gott loftræstikerfi í flestum verslunum Spánar, þekkist það enn að taka svokallað Siesta. Á siesta tímanum, sem er milli 14 og 17,  þá loka margar verslanir og skrifstofur og fara starfsmenn heim að borða. En klukkan tvö á daginn er oftast aðalmáltíð fjölskyldunnar, en það er jafnframt heitasti tíma dagsins. Þá fara flestir heim eða á ströndina. Siesta er upprunalega komið til vegna hitans á þessum tíma dagsins en áður fyrr var nær óbærilegt að vera úti eða standa í verslun eða sitja inn á skriftstofu á þessum tíma. Nú til dags er reyndar aðeins að verða breyting á þessu, og þá helst í stórborgum Spánar, en þar eru oft verslanir opnar allan daginn.

Kl 14 þegar fólk fer heim að snæða eru húsmæðurnar oft búnar að dekka upp borð fyrir fjölskylduna og elda margskonar rétti. Þar tíðkast oft að hafa aðalrétt, salat og brauð og svo kannski eitthvað fleira sem er notað frá deginum áður. Allt er nýtt og fer ekkert til spillis. Svo situr fjölskyldan við borðið heillengi og nýtur matarins og spjallar saman um hvað hefur drifið á daginn. Þar er oft útbúið sallat á stóran disk sem er settur á mitt borðið. Svo fær einhver við borðið það hlutverk að dreitla yfir það olíu og vínegar og salti. Meðan á máltíðini stendur borða svo allir með sínum gaffli af salatinu sem er á miðju borðsins, en fá sér ekki hver á sinn disk. Þetta skapar vissa stemningu við borðið og tengir fólk saman.

Torta en hún er oft borðuð í morgunmat og í eftirrétt með kaffi

Þegar aðalmáltíðinni er lokið, er sitið áfram og þá teknir fram ávextir eða jógúrt til að fullkomna máltíðina. Oft eru líka ostar og álegg eins og hráskinka dregið fram og haldið áfram að snæða. Þetta er kallað postre eða eftirréttur og þarf það ekki alltaf að þýða endilega kaka, ís eða eitthvað sætt. Þegar allir hafa fengið sér eitthvað í eftirrétt er haldið áfram að sitja við borðið og þá er hellt upp á kaffi. Með kaffinu er stundum tekið fram eitthvað sætt eins og spænkst sætabrauð Torta (sem er í raun einhvernskonar brauð með sykri ofan á) eða jafnvel eitthvað annað. Þetta er ekki alveg algilt að það sé borðað eitthvað sætt með kaffinu en kaffi er samt ávalt á boðstólnum. Meðan á þessu langa borðhaldi stendur yfir situr öll fjölskyldan saman og spjallar, jafnt börn sem fullorðnir, og man ég alltaf frá því ég var barn hvað mér fannst þetta alltaf sérstök og yndisleg stund með fjölskyldunni.

Hér erum við í grillveislu út í skógi sem stóð vel og lengi yfir en maturinn flæddi yfir borðin og var mikið borðað og drukkið, og eins og sést á myndinni var spilað meðan verið var að grilla og sækja allan matinn.

Borðhald á Spáni getur oft vel farið upp í 1 og hálfan tíma, þar sem allir sitja og snæða saman í rólegheitum. Eftir matinn er svo gengið frá og tekið siesta, en siesta þýðir  blundur í beinni þýðingu, þó orðið merki aðeins meira en bara það. Það þýðir í raun þessi tími milli 14-17 þegar allir fara heim að snæða og leggja sig. Börn og fullorðið fólk tekur sér oft lúr á þessum tíma en á sumrin fer yngri kynslóðin oft á ströndina. Oft leggst fólk líka fyrir framan sjónvarpið og horfir á eina suður-Ameríska sápuóperu sem oft eru sýndar akkurat á þessum tíma. Þar er mikið drama og gaman að fylgjast með menningarmuninum á latínó sjónvarpi eða hinu ameríska, breska eða skandínavíska sem oft er mun  niðurtónaðra en það sem kemur úr latíno heiminum. Þar er mikið um tilfinningar og blóðhita og ansi mikið um að vera. Svik og prettir og svaka drama sem er oft leikið með miklum tilþrifum og handahreyfingum.

Oft borða spánverjar ekkert frá hádegi til kvölds nema kannski kaffibolla og eitthvað örlítið með. Krakkarnir hins vegar gæða sér oft á bocadillo samloku og Cola Cao sem er spænkst rótgróið kakómerki á Spáni. Bocadillo er samloka sem er gerð úr baguette eða ciabatta og er oftast með áleggi eins og hráskinku, chorizo, ommelettu og grilluðum papríkum eða túnfisk. Oft fá krakkar á Spáni pipas að narta í á milli mála, en pipas er sólblómafræ sem er enn í hýðinu og búið er að salta vel. Pípasið er sett í heilu lagi upp í munninn með hýðinu og öllu og svo er lagni við að bíta hýðið í sundur á milli jaxlana og ná sólblómafræinu úr með tungunni og spíta svo hýðinu út úr munninum. Ég hef oft reynt að gefa Íslenskum vinum mínum þetta á Spáni og haft  gaman af að sjá þau reyna við tæknina við að borða pipas.

Pipas, Bocadillo og Cola Cao 

Á kvöldin er svo kvöldverðurinn oft snæddur mjög seint, oft ekki fyrr en klukkan 20-21 og jafnvel enn seinna. Þá fyrst loka verslanir og fólk fer heim eftir daginn. Á mörgum heimilum er borðhaldið eins á kvöldin og í hádeginu og sitið er lengi við borðið og borðað vel, fjölbreytt og mikið.

Oft elda konurnar þá annan rétt og meðan eiginmennirnir og fjölskyldan bíður eftir matnum er tekið fram tapas til að minnka hungrið, oft er það bjór og kræklingur úr dós sem er stungið í með tannstöngli, ólífur í kryddolíu eða þess vegna smá ostbitar. Þið kannski rekið augun í síðustu setningu en á Spáni, sérstaklega á litlum stöðum og í fjallaþorpum, gilda enn  gamaldags viðhorf. Þá er konan sú sem eldar, bakar þrífur og hugsar um börnin, og mennirnir eru úti að vinna og fá svo þjónustu þegar þeir koma heim.

Hérna erum við að borða með Jose frænda mínum og Noelíu konunni hans í Almeria 

Mér finnst t.d. mjög fyndið þegar ég fæ spurningar frá föðursystrum mínum um hvort Raggi maðurinn minn skipti á börnunum okkar og ef þær hafa hringt þegar verið er að ganga frá og Raggi er að setja í vél, verða þær alveg forviða af undrun og hreyknar yfir því hvað hann sé duglegur maður. Að sama skapi veit ég að þær hneykslast smá inn í sér fyrir að ég, konan hans, sé að setja hann í þessi verk hahaha. En ég tek það nú ekkert nærri mér enda þekki ég vel til menningarmunarins sem er mjög mikill. Myndi ég alveg segja að Spánverjar séu mörgum árum á eftir okkur hvað þetta varðar en eru samt á réttri leið. Sérstaklega kynslóðin sem er að koma sér upp fjölskyldum.

Hins vegar má ekki gleyma því að við á Íslandi búum mjög vel þegar kemur að leikskólamálum. Á Spáni kostar mjög mikið að setja barn á leikskóla og borgar það sig því oftar frekar að vera heimavinnandi fyrir konur eftir að börnin fæðast. Því er það mjög þekkt á Spáni að kona sem hefur menntun og er búin að vera á vinnumarkaði detti út af honum þegar börn koma til sögunnar og eru lítil.

En svo við snúum okkur aftur að borðahaldinu þá eru matmálstímar afar mikilvæg stund í lífi spænskra fjölskyldna. Þar er hraðinn ekki eins mikill og hér heima, en mér finnst oft súrt að vera búin að elda góðan mat sem stundum tekur langan tíma og svo eru bara allir staðnir upp frá borði eftir korter. Þannig er það allavega á mínu heimili og tekur oft eldamennskan lengri tíma en borðhaldið sjálft.

Mér finnst að við ættum aðeins að reyna að taka Spánverjana okkur til fyrirmyndar og sitja lengur með fjölskyldum okkar við borðið og eiga með börnunum okkar þessa gæðastund.

En að lokum langar mig að gefa ykkur uppskrift af spænskum rótgrónum rétti sem kallast Arroz con Pollo eða Hrísgrjón með kjúkling. Þessi réttur er svona stóra frænka Paellunar en hann er mjög svipaður henni nema meira svona hversdags og eldaður mun oftar en Paella á spænskum heimilum.

Í réttinn þarf

 • 1 bakka af úrbeinuðum kjúklingalærum
 • 1 græna papríku
 • 1-2 rauðar papríkur
 • 1 lauk
 • 1 hvítlauk
 • 1 bolla af grænum baunum (ég nota frosnar)
 • 1 -2 kjúklingasoðstening
 • 1 fiskisoðstening
 • 1-2 stóra tómata eða 5-7 litla plómutómata
 • 1 og halft glas af grautarhrísgrjónum (mjög mikilvægt að þessi grjón séu notuð, keypti mín í Hagkaup)
 • 4 vatnsglös
 • Gulan lit sem kallast colorante (fæst ekki hér á Íslandi en hægt er að nota saffran frá Costco eða Turmerik fyrir  litinn kippa colorante með sér heim úr sumarfríinu á Spáni en það fæst í öllum súpermörkuðum á Spáni)
 • Salt og pipar
 • ½ dl Ólifuolíu
 • Fyrir þá sem vilja þá er svakalega gott að setja hörpuskel og risarækjur með í þennan rétt.

Colorante og grjónin sem á að nota í þennan rétt.

Aðferð

 

 • Skerið laukinn í smátt og merjið hvítlaukinn. Skerið papríkurnar í langa þykka strimla og tómatana í litla bita.
 • Sneiðið lærin í tvennt

 • Hitið ólífuolíu á stórri pönnu og setjið lauk, tómata og hvítlauk út á og saltið létt yfir og piprið.

 • Þegar laukurinn er orðin mjúkur setjið þá papríkurnar út á og saltið aftur létt yfir og leyfið þeim að mýkjast líka við vægan hita.
 • Passið að brenna ekki laukinn.

 • Næst er svo kjúklingurinn settur yfir allt á pönnuna og hrært í öllu og saltað og piprað aftur.

 • Þegar kjúklingurinn er aðeins byrjaður að hvítna setjið þá grjónin yfir allt og hrærið vel í svo þau fari inn á milli alls staðar.

 • Næst er svo vatnið soðið í katli og teningarnir leystir upp í því.
 • Því er svo hellt út á allt saman og hrært í síðasta skiptið saman.
 • Athugið ekki hræra í réttinum neitt meir á meðan hann er að sjóða.

 • Hellið nú grænum baunum yfir allt saman og colorante litnum og látið sjóða í 25 mínútur við vægan hita.

 • Þegar rétturinn er til eiga grjónin að vera orðin mjúk og smá aukasoð á að vera á honum.
 • Ekki hafa áhyggjur af að vatnið sé ekki allt gufað upp því svona á hann vera.

 

Berið svo fram með góðu snittubrauði sem er gott að dýfa í soðið J

Þennan rétt er mjög auðvelt að gera og smakkast hann alveg svakalega vel. Hann var einn af mínum uppáhaldréttum þegar ég var krakki og finnst krökkunum mínum hann líka mjög góður.

Verði ykkur að góðu og munið að njóta matarins og sitja vel og lengi við borðið með fjölskyldum ykkar

Knús

María 

 

 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest