Kennið ungbarninu að svæfa sig sjálft

höf: maria

Þegar ég eignaðist Gabríelu fyrir nærri 19 árum síðan vildi ég verða eins og allir ,,fyrsta skipti foreldrar” besta mamma í heimi. Ég vildi ekki að barninu mínu myndi nokkurn tíman líða ílla, vera óöruggt eða hrætt.

Þess vegna hélt ég, þegar ég vissi ekki betur, að ég væri að gera svo rétt með því að liggja hjá henni á hverju kvöldi og svæfa hana. Eftir því sem hún stækkaði varð það erfiðara og tók alltaf lengri og lengri tíma fyrir mig að koma henni niður og liggja hjá henni.

Þetta gerði ég þar til hún var 4 ára en þá fékk ég alveg nóg. Þetta var hætt að vera gæðastund og orðið kvöð og pína að þurfa stundum að liggja hjá barninu oft upp í allt að 2 klst á kvöldin, meðan háskólaheimanám beið eftir mér.

Gabríela vildi alltaf láta svæfa sig en svaf alltaf einstaklega vel á nóttuni og vaknaði nánast aldrei frá því hún fæddist 

Þegar ég eignaðist barn númer 2, Reyni Leo, var ég alveg ákveðin í því að fara allt aðra leið með hann. Ég ætlaði bæði að hafa hann styttra á brjósti og kenna honum að sofna sjálfur.

Reynir Leo var á brjósti í 7 mánuði, lærði að borða fasta fæðu í formi mauks 5 mánaða og svæfði sig sjálfur frá 6 mánaða aldri. Þvílík paradís að geta lagt barnið sitt upp í rúm eftir að hafa baðað og lesið fyrir það og það sofnar svo alveg sjálft rólegt og sælt.

Reynir Leo var aldrei svæfður eftir 6 mánaða aldur. Hann vaknaði mjög oft kl 4 á nóttunni en það hætti eftir að hafa beitt ráðum svefnráðgjafans

Ég kaus að fá hjálp hjá svefnráðgjafanum , Ingibjörgu Leifsdóttur, sem er algjörlega endurgjaldslaus þjónusta á landspítalanum. Ekki vegna vandamála af neinu tagi heldur bara til að læra að gera þetta rétt og án þess að barninu fyndist það vera hafnað eða vanrækt á nokkurn hátt.

Þegar börn númer 3 (Mikael) og 4 (Viktoría Alba), komu svo stuttu seinna með mjög stuttu millibili, var engin spurning um annað en að þau færu öll að sofa á sama tíma og myndu svæfa sig sjálf.

Í hvert skipti sem fæddist nýtt barn, fór ég aftur til Ingibjargar Leifsdóttur.  Það gerði ég til að öpdeita vitneskjuna og rifja upp. Einnig fannst mér mikilvægt að fá hjálp með að koma þetta mörgum börnum í háttinn í einu.

Mikael hefur verið langþægilegasta barnið af öllum þegar kemur að svefni. Hann bæði er mjög góður að sofna og sefur alltaf allar nætur 

Viktoría Alba er mesti vargurinn af þeim öllum og hefur verið erfiðust hvað svefn varðar. Hún er nýlega greind með astma og bakflæði svo það útskýrir margt

Hér ætla ég að kenna ykkur það sem ég lærði af Ingibjörgu

  • Það er mikilvægt að þegar byrjað er á ferlinu að barnið sé byrjað að fá fasta fæðu eins og graut, eða ábót á pela við 4-6 mánaða aldur. Einnig að það sé orðið 5 kg.
  • Gangið úr skugga um að ekkert líkamlegt ami að barninu, eins og eyrnabólga, bakflæði, flensa eða annað.
  • Best er að láta barn í sitt eigið herbergi. Ef það er ekki til herbergi fyrir barnið hafið þá rúmið ekki of nálægt ykkar rúmi.
  • Barn þarf að vera búið að vaka í 3-5 klst frá síðasta lúr fram að kvöldháttartíma en það fer svoldið eftir því hvort barnið er 4 mánaða eða 6 mánaða. Eftir því sem barnið stækkar þolir það nær 5 tímum í heila vöku, en svo er þetta auðvitað líka misjafnt eftir börnum. T.d. ef barn vaknar af daglúr kl 15 þá passar fínt að það fari að sofa klukkan 19:30-20 ef það er orðið 6 mánaða.
  • Notið alltaf sömu rútínu áður en barnið fer að sofa. Þá lærir það að þekkja að nú fer að koma að háttatíma. Sem dæmi: kvöldmatur, bað, tannbursta og bók… og gerið þetta helst allt í sömu röð hvert kvöld þó það sé ekki alveg nauðsynlegt samt.
  • Slökkvið á sjónvarpi og útvarpi. Talið svo við barnið ykkar og látið það vita að bráðum fer það að lúlla og sofa. Haldið því að ykkur og verið róleg og syngið litla vögguvísu fyrir það, en bara frammi, ekki þegar það er komið upp í rúm. Þannig náið þið svoldið að vera búin að róa barnið niður áður en það leggst upp í.
  • Þegar komið er að því að leggja barnið í rúmið sitt, ekki þá sýna miklar tilfinningar. Reynið að sýna sem minnst svipbrigði og vera sem mest vélræn. Hafið allt sem styst þegar barnið er komið upp í. Ekki reyna að hugga eða tala það til. Þetta er mikilvægt því að barnið þarf að læra að nú er allri þjónustu lokið. Réttið því dudduna ef það er með slíka og breiðið yfir það og bjóðið því góða nótt. Ekkert knús eða kjass né bros heldur bjóðið því bara rólega og vélrænt góða nótt. Barnið er búið að fá fullt af dekri og knúsi áður en það fór upp í.
  • Fyrst mun barnið mótmæla harðlega og eflaust gráta sum alveg brjáluð og skilja ekkert í þessu. Þá er mikilvægt ef barn er 4 mánaða eða yngra að láta 2 heilar mínútur líða áður en það er farið aftur til barnsins. (Þ.e farið er inn til barnsins á 2 mínútna fresti). Látið 3 mínútur líða á milli ef barn er eldra en 5 mánaða. Eftir að tíminn er liðinn er farið inn til barnsins og gefin dudda, breitt sæng á það og sagt aftur vélrænt og rólega góða nótt, engin svipbrigði. Þessar 2 og 3 mínútur eru mjög mikilvægar og ekki láta líða styttri né lengri tíma á milli. Takið tímann á klukkunni.
  • Það er svakalega erfitt að halda út þessar 2-3 mínútur, hlustandi á barnið sitt gráta og öskra. Það sem flestir falla á er að gefa barninu ekki þann tíma sem þarf, eða að láta akkurat 2 eða 3 mín líða meðan barnið grætur. Svo þarf einnig að gefa þessu alveg heila viku. Oftast nær eru börn alveg búin að læra inn á þetta á einni viku og eru ekkert nema sátt við að fá að sofna sjálf. Svo ég tali nú ekki um foreldrana… þvílíkur léttir þetta er fyrir þá !!!
  • Ef það hefur verið reynt á þetta í viku eða meira, og þið hafið 100 % farið eftir reglunum og ekkert gengur, þá þarf að láta athuga hvort eitthvað líkamlegt gæti verið að. Ef ekkert þannig amar að barninu ráðlegg ég ykkur að prófa að setja það á mixtúru sem heitir Vallergan en ekki í meira en eina viku. Eingöngu bara þegar verið er að kenna því að sofna sjálft. Vallergan er lyfseðilsskyld ofnæmismixtúra sem hefur slævandi áhrif og er það gefið hálftíma fyrir svefn. Ég persónulega myndi ekki gefa barni undir 6 mánaða lyfið. Ég þurfti að gefa yngsta barninu mínu þessa mixtúru þegar hún var 6 mánaða og sé ekki eina mínútu eftir því. Það auðveldaði okkur öllum ferlið og henni sérstaklega.
  • Ef barn er mikið að vakna á nóttunni þarf að kenna því að sofa í gegnum nóttina. Þess vegna er svo mikilvægt að barn sé byrjað að fá ábót í formi grauts eða pela þegar byrjað er á ferlinu, svo það sé ekki svangt á nóttunni. Þegar barn vaknar um nótt er sama aðferð notuð og þegar það fer að sofa. Farið til barnsins eftir 2 eða 3 mín (eftir aldri) og verið vélræn. Ekki taka barnið upp heldur breiðið yfir það, klappið því ögn á bringuna og segið suss suss góða nótt, rólega og vélrænt. Farið svo aftur út úr herberginu eða frá rúminu og látið aftur 2 eða 3 mín líða þar til þið farið aftur til barnsins. Endurtakið allt það sama og áður. Þetta er endurtekið aftur og aftur alveg þar til barnið sofnar. Alltaf láta líða 2 og 3 mínútur á milli, og ekki hafa áhyggjur ef barnið er ekki enn sofnað eftir 20-30 mín. Hér er alveg bannað að gefa barni pela með vatni eða mjólk. Duddan og sæng er eina þjónustan í boði 🙂
  • Nætursvefninn á að geta varað allt frá 10-12 klst eftir börnum en ef þau sofa styttra en það, eru þau ekki nægilega hvíld. Barn undir eins árs þarf 14-15 tíma svefn í allt á sólahring. Ef barnið sefur 10 tíma yfir nótt þarf það c.a 3-4 klst í daglúra en alls ekki þremur til fimm klukkustundum áður en þau eiga að fara að sofa. Ef barn sefur tólf tíma þarf það ekki meir en 1-2 klst í daglúra.
  • Þetta getur fyrstu dagana tekið alveg upp í hálftíma grátbaráttu og eru fyrstu 4-6 dagarnir oft erfiðastir. Smábörn eru alveg svakalega fljót að læra inn á þetta og að sefa sig sjálf. Þau munu heldur ekki bera neinn skaða af þessu, þvert á móti.

Gefið börnunum ykkar óskipta athygli á daginn og nóg af kossum og knúsum. Þegar barn er komið upp í þá er því lokið og öll þjónusta í algjöru lágmarki 

Reynið að skapa rólegt umhverfi rétt fyrir svefninn og hafa alltaf sömu rútínuna áður en barn fer að sofa. 

Kannski finnst ykkur þetta skelfileg tilhugsun og hljóma hræðilega. Þið getið ekki hugsað ykkur að hlusta á litla krílið ykkar gráta sárt og reitt eftir ykkur kvöld eftir kvöld í langan tíma til að byrja með, en trúið mér að þessar elskur er svo seig og þau þola það.

Það getur verið erfitt að standast þessu litlu kríli og vera harður við þau, en stundum er það nauðsynlegt þeirra vegna 

Á meðan þau eru alveg ný og hafa ekki lært þessa tækni þekkja þau ekkert annað en að fá fulla þjónustu 24/7, og auðvitað vilja þau ekki missa það. Þið þurfið hins vegar að kenna barninu ykkar muninn á nóttu og degi.

Á daginn er full þjónusta, fullt af knúsum, gleði og brosum en á kvöldin þegar kominn er háttatími, þá er þjónustan búin og allir eiga að sofa. Þið eruð að gera barninu ykkar og ykkur sjálfum svo gott með því að kenna þeim þetta og mæli ég 100 % með því að þið gerið það.

Ég get ekki lýst því hversu mikill lúxus það er að geta lagt börnin sín upp í á kvöldin, og að þau sofni hvert og eitt sjálft í sínu rúmi, hvert í sínu herbergi.

Yngstu gormarnir þrír 

Stundum er líka leyfilegt að hafa svoldið stuð og gaman í háttatímanum rétt áður en farið er upp í

Ekki óttast að fara þennan veg með barninu ykkar því til langs tíma litið eruð þið að gera barninu ykkar og sjálfum ykkur svo mikinn greiða. Langar samt að taka fram að ef barn verður veikt og er búið að fara í gegnum ferlið, þá eiga þessar reglur ekki við. Leyfið barninu að batna og byrjið svo aftur upp á nýtt að kenna því að sofna.

Gangi ykkur vel

knús

María 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

2 Athugasemdir

Vera May 9, 2018 - 8:29 pm

Takk fyrir þetta! Ég er að reyna að venja mína sem er 2 síðan í febrúar. Hvernig gekk þetta hjá þinni 4 ára?

Svara
maria May 19, 2018 - 9:25 pm

það var lítið 🙂 Ég notaði þetta aldrei á elstu stelpuna mína sem var ástæðan fyrir því að ég ákvað að notast við þessa aðferð á þau 3 yngstu. Það gékk samt alveg ágætlega að nota umunarkerfi á þessa elstu þegar hún var orðin 4 ára. Þá fékk hún alltaf límmiða um morgunin fyrir að hafa verið dugleg að fara að sofa og svo þegar hún var búin að safna fyrst bara 5 límmiðum fékk hún verðlaun…..næst urðu það svo 10 límmíðar svo 15 og svo bara dó það út 🙂

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here