Þrjár uppskriftir af jólabakstri

Matur & Menning

Ég man þegar ég var krakki og flutti heim til Íslands, þá bökuðu íslenskar húsmæður yfirleitt 10 sortir af smákökum fyrir jólin. Ég er engan vegin þannig en finnst gaman að baka það sem mig langar til fyrir hver jól. Það er mjög mismunandi hvaða sortir verða fyrir valinu. Ein jólin getur það verið lakkrístoppar, önnur smartieskökur og döðlukonfekt og svo eitthvað allt annað jólin á eftir. Hins vegar eru tvær sortir sem eiga sér orðið fastan sess í jólahaldinu á heimilinu, Piparkökur og Engiferkökur. Svo geri ég bara þá sort sem mig langar til að prufa hverju sinni.

Þessi jólin rakst ég á Piparmyntu ljóskur með hvítu súkkulaði. Ég prufaði að baka þær og útkoman varð skemmtilega öðruvísi, jólaleg og virkilega bragðgóð. Ég ætla hér að gefa ykkur uppskrift af þessum þremur sortum, en jólalegra getur það ekki orðið.  Ilmurinn í húsinu er blanda af piparkökum, engiferkökum og mandarínum. Sannkallaður Jólailmur.

Piparmyntu ljóskur með hvítu súkkulaði

Þessa uppskrift fann ég í Amerísku veftímariti og fannst hún hljóma svo skemmtilega öðruvísi að ég mátti til með að prófa hana. Ljóskur, eða Blondies, eru í raun hvít útgáfa af Brúnkum, eða Brownies. Í stað dökkts súkkulaðis er notað hvítt og ég gæti alveg trúað að gott væri að setja makademíuhnetur í hana, án þess að hafa prófað það.

Kökurnar er gott að skera í litla bita og er hver biti mjúkur og seigur í senn, með stökku hvítu súkkulaði og mildu piparmyntubragði sem fléttast dásamlega saman.

Í uppskriftina þarf

Botn: 

 • 3/4 bolli bráðið smjör
 • 3/4 bolli sykur
 • 2/3 bolli ljós púðursykur
 • 3 egg við stofuhita
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk piparmyntudropar
 • 2 2/3 bollar hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 2 plötur hvítt gróft saxað súkkulaði

Aðferð:

-Hrærið saman í eina skál; bræddu smjöri, sykri, púðursykri, eggjum, vanillu og piparmyntudropum. Ekki stífþeyta eða hræra mikið heldur bara þannig að hráefnin séu orðin ágætlega blönduð saman.

-Takið aðra skál og setjið í hana hveitið, lyftiduftið og saltið og hrærið því saman með matskeið.

-Blandið svo hveitinu smátt saman við eggjablönduna og hrærið þar til blandast saman en ekki of mikið. Ekki þeyta á full speed heldur bara annað hvort hafa á lægsta hraða eða helst gera með sleif í höndunum. Deigið getur verið stíft og erfitt að hræra en þannig á það að vera.

-Setjið smjörpappa í bökunarskúffu, helst í stærð 33×22, ef þið eigið, og dreifið deiginu jafnt yfir skúffuna.

-Bakið svo á 175 c°í 30-35 mínútur. Gott er að stinga hníf í miðjuna og ef hann kemur hreinn upp þá er kakan til.

-Kælið vel áður en kremið er sett á.

Krem: 

-450 gr rjómaostur

-1 bolli flórsykur

-1 tsk vanilludropar

-3/4 bolli piparmyntubrjóstsykur eins og jólastafir eða Bismark brjóstsykur

Aðferð:

-Þeytið saman rjómaost, flórsykur og 1 tsk af vanilludropum. Þeytið þar til kremið verður loftkennt og létt.

-Þegar kakan hefur kólnað, smyrjið þá kreminu yfir hana alla og skreytið svo með mulnum piparmyntustöfum eða Bismark brjóstsykri. Ég notaði mortel til að mylja brjóstsykurinn en það má líka setja hann í poka og lemja með kökukefli. Hann á ekki að verða að dufti en ekki heldur of grófur.

Engiferkökur

Þessar kökur komu inn í líf mitt með manninum mínum Ragga. Uppkriftin er komin frá mömmu hans en það var rík hefð á hans heimili að baka þær fyrir hver jól. Ég viðurkenni það að ég hafði aldrei prófað engiferkökur áður, enda voru þær ekkert sérstaklega að heilla mig, og mér fannst þær ekki nógu mikið nammi.

Ég að sjálfsögðu hafði samt ekkert á móti því að hann myndi baka þær sem hann gerði fyrstu jólin okkar saman og úr varð að hann hefur séð um bakstur Engiferkakana alveg síðan. Hann vill meina að þær séu alveg ferlega auðveldar í bakstri.

Ég var svo lítið fyrir þær að ég held að ég hafi ekki einu sinni smakkað þær fyrr en önnur jólin sem hann bakaði þær, og O my þær eru geggjaðar. Þær eru stökkar að utan og mjúkar og chewi að innan og bragðið er bara svo gott, að þegar maður fær sér eina endar maður oft í 10. Svo passið ykkur !!!

Venjulega borðum við þær eins og þær koma úr ofninum en fyrir ykkur ákvað ég að prófa að dýfa þeim ofan í hvítt súkkulaði og skreyta smá með glassúr. Fyrirmyndina sá ég á netinu og féll fyrir henni. Þær eru svakalega góðar í sparibúningnum en líka einar og sér með ískaldri mjólk.

Í uppskriftina þarf

 • 250 gr bráðið smjörlíki
 • 500 gr hveiti
 • 500 gr dökkur púðursykur
 • 2 egg
 • 3 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk negull
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk engifer

Aðferð:

-Byrjið á að setja í skál allt þurrefnið og egg og hrærið ögn. Bræðið næst smjörlíkið og setjið út á. Hnoðið helst í hnoðara þar til deigið er silkislétt og glansandi.

-Setjið á disk og poka yfir. Gott er að geyma í kæli helst yfir nótt, en það sleppur líka að hafa það í 2 klst +

-Takið svo deigið úr kæli og mótið kúlur á stærð við heimagerðar kókóskúlur og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír. Þrístið svo einum fingri niður í deigið til að mynda dæld eins og sýnt er á myndinni fyrir ofan. Þetta er gert við allar kúlurnar svo þær verði fallegri í laginu.

-Bakið á 200 c°í 8-10 mínútur.

Svona eiga þær að líta út þegar þær eru tilbúnar 

Þessar eru svo góðar og skilja eftir sig svo góða jólalykt að þið eruð eiginlega bara skyldug til að prófa að baka þær. Svo eru þær svo ótrúlega einfaldar í bakstri

Piparkökur

Eftir að elsta barnið mitt fæddist varð það hefð að baka alltaf piparkökur til að skreyta eða gera úr piparkökuhús. Yfirleitt gerum við piparkökuhús en stundum bara fígúrukökur sem við málum og skreytum fyrir jólin.

Þetta árið gerðum við fígúrur, kalla og kellingar. Barnanna vegna finnst mér það bara vera skylda að baka piparkökur svo þau geti málað og haft gaman af.

Ég viðurkenni að mér þykja piparkökur ekkert neitt sérstaklega góðar en krakkarnir mínir eru vitlausir í þær. Ég hef oftast bara googlað uppskriftir af þeim hverju sinni og hafa þær verið misgóðar. Þessa hér fann ég á netinu fyrir þessi jólin og fannst mér hún lukkast bara þokkalega vel. Því ætla ég að gefa ykkur uppskrift af henni.

Í uppskriftina þarf

 • 200 gr smjör lint
 • 150 gr sykur
 • 3 msk síróp
 • 2 tsk matarsódi
 • 100 ml súrmjólk
 • 1 msk kanill
 • 2 tsk engifer
 • 2 tsk negull
 • 500 gr hveiti

Aðferð:

-Smjörið hrært þar til það er orðið lint og ljóst með sykri, sírópi og matarsóda.

-Súrmjólk er siðan bætt úti í ásamt kryddinu og allt hrært saman.

-Hveitinu er svo blandað við og hnoðað.

-Það er gott að kæla þetta deig en ekki nauðsynlegt. Gott er að geyma svo á borði áður en flatt er út ef geymt er í kæli.

-Bakað við 180 c°þangað til kökurnar eru orðanar vel brúnar en það tók  allt frá 9-14 mínútum eftir því hversu þykkar kökurnar voru. 

Allar þessar uppskriftir eiga það sameiginlegt að vera mjög einfaldar en jafnframt mjög bragðgóðar. Ég mæli svo með því að þið prófið þær og lofa að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum, eða það ætla ég alla vega að vona.

Ég ætla svo bara að ljúka færslunni á myndasyrpu af þessum kræsingum en það náðust svo margar girnilegar myndir sem ég bara tími ekki að sýna ykkur ekki. Held líka að þið neyðist til að baka eftir að hafa skoðað þær 🙂

Njótið

María

 

 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest