Gólfefnið og Gólflistarnir í húsinu mínu

höf: maria

Ég hef verið að fá svoldið mikið af fyrirspurnum um hvaða parket og gólflista við erum með. Ég verð að viðurkenna það að ég er alveg virkilega ánægð með bæði parketið og gólflistana í húsinu.

Í gömlu íbúðinni okkar þar sem við bjuggum áður vorum við með gegnheilt plankaparket úr Eik. Ég var orðin ansi þreytt á því gólfefni. Ástæðan var sú að það þoldi nánast ekkert. Þar sem ég er með 4 börn þá gefur það auga leið að við þyrftum gólfefni sem myndi þola högg, lit úr mat, vökva og já í raun bara almenna umgengni. Þar sem Eikarparketið þoldi akkurat ekkert vorum við oft á taugum yfir gólfefninu sem okkur fannst bara liggja undir skemmdum með krakkagríslingana. Ef það datt leikfang á gólfið þá var komin dæld eftir það, eins ef það fór niður jarðaber eða bláber þá festist liturinn og svo tala ég nú ekki um ef að helltist niður og maður sá það ekki strax þá var hætta á bletti.

Hér er mynd af gamla eikarplankaparketinu sem við vorum með þar sem við bjuggum áður, parketið var mjög viðkvæmt og þoldi lítið

Í nýja húsinu var gamalt gegnheilt stafaparket sem var mjög dökkt og farið að láta á sjá. Við athuguðum með verðið í að pússa það upp og hvort hægt væri að gera það eins og við vildum, eða hvíttað. Verðið var á við nýtt parket jafnvel dýrara og eins var mikil áhætta að láta hvítta upp svona dökkt parket því það gæti endað bleikt, jafnvel appelsínugult.

Hér er mynd af parketinu sem var til staðar í nýja húsinu

Mig langaði helst að fá parket í nýja húsið og var um margt að velja. Við skoðuðum t.d. nýjasta nýtt sem eru parketflísar sem er alveg rosalega sniðugt gólfefni, en það eru í raun bara flísar með útlit parkets og eru þær alveg einstaklega raunverulegar og erfitt að sjá mun á þeim og raunverulegu parketi. Þess konar flísar sá ég t.d. í Álfaborg sem var með mikið úrval af þeim og eins í Vídd. Við höfðum áður sett svona flísar á vegginn inn á baði í gömlu íbúðinni en það er t.d. sniðugur kostur fyrir þá sem vilja hafa viðarvegg inn á baði.

Mynd af baðherberginu úr gömlu íbúðinni okkar en þar settum við parketflísar á vegginn bakvið baðkarið

Eftir mikla skoðun á gólfefnum var ákveðið að fá sér harðparket, en það þolir gjörsamlega allan fjandann. Ég skoðaði mikið úrval og voru þau mismunandi eins og þau voru mörg. Já og í öllum verðflokkum. Það sem ég lærði á að skoða harðparket er að sum þeirra eru rosalega gervileg. Með því meina ég að sum voru bara eins og spýta með lélegri mynd ofan á sem leit út eins og pappi.

Til að fara aðeins nánar út í það hvað harðparket er þá kallast það Laminat í erlendu máli. Í harðparketi er kjarninn í miðjunni unninn úr pappa og viðarkurli sem er tætt í agnir og pressað og gengur undir nafninu HDF eða High density fiber. Ofan á það er svo límd ljósmynd af timbri og er engin hætta á að hún flagni. Þriðja lagið er svo filma sem heitir Melamin. Þessi filma er það sem gerir harðparket svo ótrúlega slitsterkt. Filmurnar eru mismunandi þykkar og slitsterkar og skiptist harðparket upp í tvo flokka eða: domestic og contract. Domestic er það sem við notum í heimili og Contract er það sem er notað í t.d. fyrirtæki og verslanir.

Kostir við harðparket er að það upplitast ekki, rispast síður, þolir mikið álag, og kostar helmingi minna en viðarparket. Ókostirnir eru hins vegar að ekki er hægt að pússa það upp og laga rispu eða skemmd nema með því að skipta út heilu borði sem getur verið mikil vinna ef skemmd er út á miðju gólfi.

Eftir mikla skoðun og leit var parketið loks fundið. Við fórum í Parket og Gólf í Ármúla 23 og fundum þar meiriháttar smelluparket á tilboðsverði eða 2500 kr fm með undirlaginu fast á. Mér fannst þetta parket mjög fallegt því það var raunverulegt í útliti, eins og raunverulegur viður. Eins fannst mér fallegt að borðin flæða saman í eina heild en mynda ekki línur á milli eins og í plankaparketi.

Hér er mynd af parketinu þegar verið var að velja það í búðinni 

Parketið okkar heitir Haro, Highland Oak 9mm með undirlagi. Og get ég hiklaust mælt með því. Það þolir gjörsamlega allt og er hægt að nudda úr því bletti og skít eins og skrattinn sjálfur án þess að rispa það. Eins þolir það algjörlega þegar húsgögn eru dregin til á því og er það mjög rakaþolið. Við t.d. settum eitt borð í vatnsfötu yfir nótt til að sannreyna rakaþolnina í því, og sá ekki á því. Sem dæmi um styrkleika þess þá neistaði vélsögin þegar það var sagað þar sem það er svo rosalega hart og sterkt.

Parketið lagt í miðjum framkvæmdum 

Þegar allt kom til alls kostaði okkur að fá nýtt parket minna en að láta pússa upp það gamla, maðurinn minn lagði það sjálfur en hann er ekki menntaður iðnaðarmaður heldur var hann að gera þetta í fyrsta skiptið. Svo ef þið treystið ykkur til þá hvet ég þá sem þora til að reyna að leggja gólfefni sjálfir.

Hér er svo gólfefnið komið á nýja húsið. Elska það !!!

Mér finnst ekki nóg að hafa bara fallegt gólfefni, en gólflistarnir skipta líka miklu máli. Fallegir gólflistar geta gert svo ótrúlega mikið fyrir heimilið og einhvernveginn ramma allt inn á svo undursamlegan hátt.

Við völdum fallega hvíta þykka skrautlista á húsið okkar þar sem okkur fannst það fara mjög vel við hvítar fulningahurðir og panelinn. Svo ég tali nú ekki um frönsku hurðina líka en mér finnst vera svona meiri heild yfir stíl hússins eftir að gólflistarnir komu.

Hversu fallegir geta gólflistar verið,  ekki leiðinlegt að taka myndir af krökkunum með fallega gólflista í bakgrunni

Þessir sem við erum með eru úr MDF efni og koma svona hvítlakkaðir í 260 cm lengjum. Þeir eru 1,7 cm á þykkt og 10 cm háir. Við keyptum þessa í Bauhaus og voru þeir á dúndurgóðu verði. Við vorum búin að fá tilboð hingað og þangað í hvíta gólflista sem voru ekkert sérstakir og hljóðuðu tilboðin oft upp á helmingi hærra en við fengum þessa á í Bauhaus. Af okkar listum kostaði 2,6 m lengja tæpar 1600 kr. Þar sem ég er með reikningin fyrir þessu ætla ég að láta vörunúmerið fylgja með ef þið hyggjist kaupa ykkur svona lista. En það er 4005705594973.

Við límdum gólflistana á með akrýlkítti en svo er einnig mjög mikilvægt að akrýlkítta vel allar skuggalínur sem myndast til að listinn fái að njóta sín sem mest. Hér getið þið séð myndir af því sem ég er að meina.

Á fyrri myndinni er ekki búið að fylla upp í skuggalínuna með akrýlkítti og þá kemur svona svört rönd. Á þeirri seinni hins vegar er það búið og sést hvernig munar miklu upp á að listinn fái að njóta sín til fulls

Ef þið standið í framkvæmdum og eruð alveg lost með hvaða gólfefni á að nota, mæli ég algjörlega með harðparketi. Það er bæði fallegt og sterkt og er varla hægt að sjá muninn hvort um sé að ræða alvöru viðarparket eða harðparket, ef vel er valið. Sum eru orðin svo svakalega vel unninn í dag. Einnig legg ég áherslu á að velja vel og rétt þegar kemur að gólflistum því þeir skipta ekki síður máli upp á að gólfefnið fái að njóta sín.

Þangað til næst

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

6 Athugasemdir

ragna December 13, 2018 - 2:53 pm

Hæ hæ, fallegir listar! Er vesen að þrífa þá?

Svara
maria December 13, 2018 - 10:16 pm

Já það er alveg smá vesen, það safnast svoldið mikið ryk ofan á þá og það þarf að ryksuga það með reglulega sem er alveg smá vesen 🙂 En bara svo flottir að það er alveg þess virði 😉

Svara
Rósa May 20, 2019 - 2:17 pm

Vá takk fyrir þessar ítarlegu upplýsingar. Var einmitt að spá í hvort ég gæti látið hvítta svona dökkt parket. Þú ert búin að svara því 🙂

Svara
maria May 20, 2019 - 2:24 pm

hahaha minnsta mál og gott að getað hjálpað 🙂

Svara
Unnur May 30, 2020 - 11:18 pm

Takk kærlega fyrir góðar og ítarlegar upplýsingarnar! Ég er aðeins að velta því fyrir mér þar sem þið festuð listana með akrílkíti hvernig passaðir þú upp á meðan kítið væri að þorna að þeir voru kjurrir á sínum stað?

Svara
maria May 31, 2020 - 9:55 pm

Sæl Unnur

Það er gott að setja eitthvað þungt bara upp að listanum, en þeir ná samt alveg að haldast vel bara með kíttinu en það er góð festa í því 🙂

kv María

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here