Einfalt Brúðkaup án öfga

Lífstíll & heilsa

Þar sem tími brúðkaupa er að ganga í garð langaði mig að skrifa um brúðkaupið mitt sem var lítið, ódýrt og einfalt. Ég gifti mig þann 11. október árið 2015. Við Raggi áttum von á fjórða barninu og langaði okkur til að vera gift þegar hún kæmi í heiminn. Brúðkaupsdagurinn okkar var jafnframt afmælið mitt, en Raggi hafði stungið upp á því að við myndum gifta okkur á afmælinu mínu. Upphaflega átti það að vera bara við tvö ásamt mæðrum okkar og börnum. Mér leist rosalega vel á þessa hugmynd. Það eina sem skipti mig máli var að fá að giftast stóru ástinni og til þess þurfti ekki stórt né veigamikið brúðkaup. Þetta var ákveðið á  fimmtudagskvöldinu 8. október tveimur dögum fyrir brúðkaupið

Mynd Gunnar Jónatansson.

Þar sem við höfðum ætlað að gifta okkur áður en hætt við, þar sem ég var orðin ólétt og mjög veik, áttum við til öll vottorð sem þurfti og því var bara að finna prest og kirkju. Okkar ósk var að fá Jónu Hrönn og Garðakirkju sem svo heppilega vildi til að var bæði laust þennan dag, enda kannski ekki margir að gifta sig að hausti til og á sunnudegi, svo það gekk allt saman upp. Veisluna héldum við svo heima í 130 fm íbúðinni sem við bjuggum í þá.

Þar sem ég var gengin rúmar 37 vikur á leið og leit út eins og hvalur átti ég ekki margar flíkur til að vera í við athöfnina. Á föstudeginum ákvað ég að fara í bæinn og finna eittvað huggulegt á mig, en nei ég passaði ekki í neitt. Ég vissi ekki hvort ég ætti hreinlega bara að bakka út og hætta við allt saman en ákvað  að deyja ekki alveg ráðalaus. Ég fór í saumabúð og keypti mér teygjanlegt sundbolaefni og teygjanlega blúndu yfir. Ég tek það fram að ég er sko hræðileg að sauma og það er ekki mín sterkasta hlið. Á fjórum fótum kasólétt liggjandi á gólfinu byrjaði ég að sníða mér brúðarkjól eftir hlýrabol sem ég átti. Einhvernveginn náði ég að tjasla saman brúðarkjól og var ég yfir mig ánægð með árangurinn. Svo fann ég brúðarskó á 5.000 kr hjá brúðarkjólaleigu í Mjóddinni sem ég man ekki alveg hvað heitir. Þeir voru skjannahvítir en mig langaði að hafa þá í stíl við kjólinn svo ég litaði þá með uppáhelltu kaffi og heppnuðust þeir mjög vel.

Myndir Gunnar Jónatansson

Hér er brúðarkjóllinn minn og brúðarskórnir sem ég gerði kampavínshvíta með því að bera á þá uppáhellt kaffi.

Mér fannst ég ekki alveg geta gift mig í þessum fína kjól sem ég hafði saumað án þess að bjóða fleirum í brúðkaupið. Svo klukkan 22 á föstudagskvöldinu byrja ég því að hringja í okkar allra nánasta og bjóða þeim í brúðkaup á sunnudeginum. Viti menn flestir voru lausir. Þegar ég var að hringja út boðin var ég spurð hvort ég væri komin með ljósmyndara og brúðarvönd. Nei ég var nú ekkert búin að hugsa þetta svo langt og ætlaði mér ekkert að einu sinni stressa mig á því. Systir mín á ská og góð vinkona ákvað að gera þá fyrir mig brúðarvönd og koma með hann í kirkjuna. Maður móðursystur minnar Gunnar Jónatansson er áhugaljósmyndari og spurði hvort hann mætti æfa sig á okkur að taka brúðarmyndir. Ég hélt það sko og svona hélt þetta áfram. Önnur kær vinkona sem er í hótelrekstri kom með stórar fyrirtækjakaffikönnur og móðursystur mínar komu með skraut og skreyttu kirkjuna korter í brúðkaup. Litla frænka mín spilaði á flautu í kirkjunni og var brúðarvalsinn spilaður á teipi og hljómaði hann vel í bluetooth hátalaranum okkar 🙂

Myndir Gunnar Jónatansson

Á laugardeginum byrjuðum við Raggi að gera veitingarnar, baka og smyrja snittur. Við vorum að allan daginn og unnum streitulaust til þrjú um nóttina við að gera veitingarnar og okkur fannst það mjög gaman. Við gerðum allt sjálf og vildum bara hafa þetta heimilislegt og sætt allt saman.

Mynd Gunnar Jónatansson

Hér er brúðartertan okkar en ég bakaði hana sjálf og skreytti með lifandi blómum ofan á. 

Svo rann upp stóri dagurinn og var byrjað að baða og krulla og strauja og taka sig til. Ég var alveg að renna út á tíma og hringdi hálfgrenjandi í móðursystur mína, hana Hrönn, sem kom hlaupandi og krullaði á mér hárið og straujaði skyrtur af strákunum. Vinahjón okkar komu og tóku börnin og fóru með þau í kirkjuna. Faðir vinkonu minnar kom svo á fína porsche jeppanum sínum og náðí í okkur. Ég hef aldrei fundið fyrir jafn mikilli samheldni og væntumþykju minna nánustu eins og á þessum degi. Allir tóku að sér eitthvað hlutverk óumbeðnir og gerði þessi samhugur og þátttakan í öllu ferlinu brúðkaupið okkar svo innilegt og ógleymanlegt. Þetta var einn af eftirminnilegustu dögum lífs míns. Allir voru svo glaðir og afslappaðir í veislunni og var alveg sérstakur andi yfir öllu. Það hafði verið spáð rigningu og leiðindarveðri þennan dag en sólin skein á okkur sem aldrei fyrr. Einhvernveginn þá bara gekk allt svo fullkomlega upp og allir voru svo glaðir og hamingjusamir  og samglöddust okkur svo innilega.

Mynd Gunnar Jónatansson

Við vildum hafa þetta óformlegt og afslappað og leiddumst við saman inn kirkjugólfið 

Hér er Addi fjölskylduvinur okkar og faðir vinkonu minnar bílstjórinn okkar. 

Við athöfnina og hringarnir okkar sem við létum sérsmíða hjá Jóni og Óskari þegar við trúlofuðum okkur.

Myndir Gunnar Jónatansson

Brúðkaupið okkar með kirkju, presti, klæðnaði, veitingum og öllu kostaði rétt tæpar 50.000 kr. Maðurinn minn var í jakkafötum sem hann átti og fóru börnin í það sem þau áttu til. Dagurinn varð ekkert verri fyrir vikið .)

Mynd Gunnar Jónatansson

Það voru um 40 gestir í veislunni með börnum

Með þessum skrifum langaði mig til að sýna ykkur að það þarf ekkert allt að vera fullkomið, kjóllinn minn var langt frá því að vera fullkomin eins og þið sjáið á myndum og allt var þetta mjög heimilislegt og afslappað. Mér fannst líka vera gamaldagsfílingur á þessu og það fannst mér gaman. Fyrir mig var svona brúðkaup fullkomið enda er ég lítið fyrir að tapa mér yfir veisluundibúningi og reyni bara að njóta og hafa gaman af.

Ég vona að þessi skrif nái einhverjum niður á jörðina og minnki stressið fyrir hvað sem hann er að fara að gera, ferma, skíra eða gifta sig. Munum að öfgar eru oft ekkert góðar og geta bara skyggnt á undirbúning og minningar sem eiga að vera góðar. Það er líka  mikilvægt að muna að í minningunni mun dagurinn ykkar alltaf vera fullkominn sama hvað.

Nokkrar myndir frá deginum.

Ég og móðursystur mínar, og svo ég og Mikael litli sem þarna var 14 mánaða. 

Mynd Gunnar Jónatansson

Við Raggi fyrir framan Garðakirkju hamingjusamlega gift 🙂

Þangað til næst

takk fyrir mig

María 

3 Comments Write a comment

Please add an author description.

3 Comments

 • Hekla Guðmundsdóttir April 28, 2017

  Virkilega fallegt brúðkaupið ykkar og þú mjög flott þó þú segist jú komin 7 mánuði á leið.
  Það er hægt að gera svo margt fyrir lítið, er algjörlega sammála þér 🙂

  • maria April 28, 2017

   takk fyrir það 🙂 Ég var reyndar samt komin rúma 8 mánuði á leið 😉

   • Hekla Guðmundsdóttir May 2, 2017

    Glæsileg 🙂

Leave a Reply

Pin It on Pinterest