Bað fyrir mjúka rassa

höf: maria

Mig langar að gefa ykkur uppskrift af alveg meiriháttar blöndu í bað fyrir exem og þurra húð. Mörg lítil börn þjást af barnaexemi og-eða þurri húð. Getur það oft valdið þeim miklum pirringi ef þeim klæjar, þar sem þau hafa ekki vit á að klóra sér.

Maðurinn minn er mikill exemissjúklingur og þjáist af miklum húðþurrki. Ég var einnig með barnaexem sem barn allt fram að fermingu. Eitt sinn þegar ég fór með manninum mínum að fá sterasprautu við exeminu þá tjáði húðsjúkdómalæknirinn mér að börnin okkar væru með 75 % líkur á að fá exemishúð, þar sem við höfum bæði glímt við þetta. Ég ákvað samt að deyja ekki alveg ráðalaus og finna lausn sem væri bæði fyrirbyggjandi og bætandi fyrir exem og þurra húð. Ég lagðist á netið og fann alls kyns uppskriftir og ákvað að taka þær sem mér leist best á og búa svo til mína eigin uppskrift úr þeim öllum.

Það var ekki að spyrja að því en þetta alveg svínvirkar og ekki bara fyrir þá sem eru með exem eða þurra húð, heldur er þetta líka bara frábært fyrir þá sem vilja fá silkimjúka húð eins og á barnsrassi. Ég nota þetta í baðið hjá mér 1-2 sinnum í viku. Ég er afar óþolinmóð manneskja og að bera á mig eitthvað body lotion er allt of mikið þolinmæðisverk fyrir mig. Þessi blanda kemur sér því afskaplega vel fyrir mig og ég er ekki frá því að mér þykir bara appelsínuhúðin á lærunum verða betri við þetta 😉

Ég mæli með því að þið prófið þetta fyrir litlu krílin ykkar og ykkur sjálf. Þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur að gera og geymist vel í ísskáp.

Í baðblönduna þarf

  • 1 Skál af möluðu haframjöli
  • 1 Skál af kókósolíu
  • 1 skál af nýmjólk
  • 1/2 skál af alvöru hunangi
  • 1/2 skál af matarsóda

Magnið ákveðið þið bara sjálf. Ég nota alltaf litlar skálar og úr því verður heil krukka utan af kókósolíunni úr Bónus (stærri gerðinni)

Aðferð

Látið haframjölið í blandara og malið það í fínt duft. Það er mjög mikilvægt að gera þetta því annars sekkur bara haframjölið á botninn í baðinu og verður að klessu. Ef þið malið það þá blandast það alveg við baðvatnið og áhrifin verða meiri. Haframjölið er mjög kláðastillandi og mýkir upp húðina.

Haframjölið á að líta svona út eftir að það hefur verið malað 

Næst er svo bara að blanda öllu saman í skál og hræra vel með skeið

Eftir að öllu hefur verið hrært vel saman lítur blandan út eins og þykkur límkenndur hafragrautur.

Næst er svo að setja þetta í gott loftþétt box eða krukku og geyma svo í ísskáp. Blandan geymist heillengi í kæli og mæli ég með því að nota hana 2-3 sinnum í viku ef exem er slæmt. Fyrir þá sem eru með exem mæli ég með því að baðið sé ekki heitara en 38 C°.  Heitt vatn getur þurrkað upp húðfituna.

Gaman að gera fína krukku til að geyma í. Ég spreyjaði t.d. þessa krukku utan af kókósolíunni svarta og finnst hún svaka fín á baðinu.

Fyrir ungabörn í bala er gott að setja teskeið útí baðið og hræra vel saman þar til leysist alveg upp í vatninu og olíurák flýtur upp á því. Fyrir stærri börn í baðkari er gott að nota hálfa matskeið út í baðvatnið. Fullorðnir nota svo heila kúfaða matskeið í fullt baðkar af vatni. Ekki skola ykkur með sturtunni á eftir heldur leyfið þessu að vera á húðinni og þurrkið ykkur í handklæði beint á eftir. Ég lofa að þið verðið algjörlega háð þessu hvort sem þið þjáist af exemi eða ekki. Blandan gerir húðina svo  silkimjúka og ljómandi.

Veit ekkert betra en silkimjúka barnshúð eftir bað. Hef alveg getað haldið niður exemi hjá börnunum mínum með þessu. Um leið og ég sé á þeim þurrkabletti notast ég við blönduna í baðið þeirra. 

Mikið vona ég að þið farið að mínum ráðum og prófið þetta, þið munið sko ekki sjá eftir því og auk þess kostar þetta afar lítinn pening að gera, mun ódýrara en sterakrem  🙂

Þangað til næst

takk fyrir mig

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here