Að vera sinn eigin ljósmyndari

Yngri kynslóðin

Þegar Gabríela fæddist fyrir 18 árum átti ég lélega filmumyndavél sem var ekki með zoom eða neinu. Ég var svo rosalega græn í ljósmyndun að ég skildi ekkert af hverju myndirnar af nýfædda barninu mínu væru svona úr fókus og af hverju ég gæti ekki tekið nærmyndir. Ástæðan var að það vantaði zoom linsu. Ég fékk mér því nýja filmuvél sem var Canon með zoom linsu og elskaði að taka myndir á hana. Ég var nú bara svona að taka ungbarnamyndir fyrir myndaalbúmið svo kröfurnar voru ekkert svo miklar.

Þegar Reynir Leo fæddist 13 árum seinna var öldin orðin önnur, í bókstaflegri merkingu. Þá voru komnar Digital myndavélar og ungbarnamyndatökur mikið í tísku. Ég auðvitað fór með prinsinn í ungbarnamyndatöku hjá Elenu Litsova og Gabríela fór í fermingarmyndatöku til hennar líka. Svo fæddist Mikael og þá fór hann í 6 mánaða myndatöku hjá Memory Boulevard og við í fjölskyldumyndatöku. Þetta var ekki ódýrt en mikið voru myndirnar fallegar. Svo fæðist lítil prinsessa Viktoría Alba og ekki vildi ég skilja hana eftir útundan. En í stað þess að fara með hana til ljósmyndara þá sannfærði ég manninn minn um að gefa mér bara eina rosa góða Canon myndavél í jólagjöf því það myndi sko margborga sig upp til lengri tíma litið og þá myndi ég sko taka allar ljósmyndir af börnunum sjálf. Ég í alvöru hélt að með því að eiga góða myndavél þá bara myndu myndirnar verða geggjaðar. Mig hefði aldrei grunað að það að eiga svona flókna myndavél gæti verið eins mikill hausverkur og það reyndist mér í vel rúmt ár, áður en ég kom mér á námskeið til að hreinlega læra á vélina.

Mikael stóð sig eins og hetja sem fyrirsæta og fannst ekki leiðinlegt að pósa fyrir mömmu sína

Þar sem ég kunni ekkert á vélina tók ég allar myndir á Auto. Myndirnar voru oft ömurlegar margar, og ég fór í fýlu út í myndavélina sem ég eiginlega lokaði inn í skáp í heilt ár og leit varla við. Það fylgdi námskeið með vélinni hjá Nýherja sem ég einhvernveginn kom mér aldrei á…… því ég hélt bara að það væri eitthvað svo heimskulegt að fara á námskeið til að læra á myndavél. En sem betur fer eftir mikla hvatningu frá Ragga þá fór ég eitt kvöld á þetta blessaða námskeið og þvílíkt og annað eins sem það opnaði margar dyr fyrir mér. Eftir þetta eina námskeið þá fór ég að taka myndir, og elska að taka myndir. Ég á mjög langt í land og á margt eftir að læra, en ég er mjög sátt við að geta tekið myndir af börnunum mínum sjálf og þó útkoman sé langt frá því að vera eins og hjá góðum fagaðila þá dugar hún mér.

Reynir Leo aftur á móti var ekki í alveg nógu góðu skapi og byrjaði frekar ílla stemmdur en samt finnst mér þessi mynd eitthvað svo flott 

Síðustu helgi tók ég myndir af litlu vörgunum mínum þremur og hér ætla ég að fá að monta mig af útkomunni. Myndavélin sem ég nota er Canon EOS 70 D og ég algjörlega elska þessa myndavél.

Það er sko ekki erfitt að taka myndir af litlu krullóttu fegurðardísinni henni Viktoríu Ölbu en hún lék á alls oddi og elskaði að vera fyrir framan myndavélina

Fallegi brúneygði prinsinn minn, grínast oft með að hann sé uppáhaldið mitt því hann sé eina brúneygða barnið mitt. Auðvitað er það ekki þannig, þau eru öll fjögur uppáhalds 

Það er eitthvað við þessa sem mér finnst svo flott. Að horfa svona niður á litla andlitið og sjá augnhárin 

Mér finnst ekki alltaf þurfa að sjást beint framan á börnin, finnst líka fallegt að sjá vangasvipi og baksvip sérstaklega eins og á Ölbu þar sem hún er mjög krulluð 

Reynir Leo var nú fljótur að hrista af sér vonda skapið og fannst orðið mjög gaman að sitja fyrir 

Reynir Leo með fallega brosið sitt 

Lilta brandarakellingin 

Litla fegurðardísin er ekki bara sæt heldur með risastóran persónuleika sem elskar að stríða, grínast og hafa gaman 

Bræður <3

Ef ykkur langar að geta tekið fallegar myndir sjálf þá er byrjunin að eignast góða myndavél og læra vel á hana.

Vona að þið hafið haft gaman af því að skoða þessar myndir

knús

María 

 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest